KR-ingurinn Orri Hilmarsson heldur vestur um haf fyrir næsta tímabil og gengur til liðs við Cardinal Strich University Wolves í bandaríska háskólaboltanum. Wolves leika í Chicagoland deild NAIA hluta háskólaboltans, en skólinn sjálfur er staðsettur í Milwaukee, Wisconsin.
Staðfesti Orri þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag. Enn frekar sagðist hann fara út komandi laugardag og kvaðst hann spenntur fyrir því að vera á leiðinni í háskólaboltann.
Orri, sem er 20 ára gamall, lék á sínum tíma upp alla yngri flokka og með meistaraflokki KR. Fyrir síðasta tímabil skipti hann yfir í Dominos deildarlið Fjölnis, en þar skilaði hann 8 stigum, 2 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik. Þá hefur hann einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.