Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn, þjálfara og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.
Bónus deildar lið Þórs í Þorlákshöfn er sagt hafa samið við fyrrum leikmann Keflavíkur Mustapha Heron fyrir yfirstandandi átök. Mustapha er sagður koma inn í liðið í stað Marreon Jackson sem leikið hefur með Þór frá upphafi tímabils.
Þór eru einnig sagðir hafa skoðað þann möguleika að fá til sín fyrrum leikmann Hauka Steeve Ho You Fat, en samkvæmt orðinu á götunni runnu þær samningsviðræður út í sandinn.
Skallagrímsmenn ætla samkvæmt orðinu á götunni ekki að sætta sig við slakt gengi í fyrstu deild karla. Á dögunum tilkynntu þeir nýjan kana í Jermaine Hamlin, en smkvæmt orðrómi mun félagið einnig vilja bæta við fyrrum leikmanni Njarðvíkur í Bónus deildinni Luke Moyer.
Haukar hafa mikið leitað að þjálfara fyrir lið sitt í Bónus deild karla þar sem Emil Barja mun víst ekki klára tímabilið með þeim þrátt fyrir gott gengi í síðustu leikjum. Nefndir sem mögulegir arftakar Emils hjá liðinu eru Friðrik Ingi Rúnarsson, Hallgrímur Brynjólfsson og Helgi Már Magnússon.
Íslandsmeistarar Keflavíkur í Bónus deild kvenna hafa einnig leitað mikið að þjálfara fyrir lið sitt eftir að Friðrik Ingi Rúnarsson sagði starfi sínu lausu þar fyrr í mánuðinum. Líklegir arftakar hafa verið nefndir Guðmundur Ingi Skúlason, Jón Halldór Eðvaldsson, Elentínus Margeirsson, Máté Dalmay, Sverrir Þór Sverrisson, Arnór Daði Jónsson eða Magnús Þór Gunnarsson.
Fyrrum leikmaður Hauka Ágúst Goði Kjartansson er sagður líklegur til að ganga til liðs við annað lið í Bónus deildinni, eru Njarðvík, Keflavík og Álftanes taldir líklegir áfangastaðir.
Samkvæmt orðinu á götunni munu Blikar vera búnir að endurheimta leikmann sinn Sölva Ólason heim úr háskólaboltanum og mun hann klára tímabilið með þeim í Smáranum.
Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á [email protected]