spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaOrðið á götunni: Hver verður næsti þjálfari Keflavíkur?

Orðið á götunni: Hver verður næsti þjálfari Keflavíkur?

Eftir sögulega slakt gengi er talið líklegt að fornfrægt lið Keflavíkur verði á höttunum eftir nýjum þjálfara fyrir næsta tímabil.

Yfirstandandi tímabil hóf félagið með Pétri Ingvarssyni, sem gerði liðið að bikarmeisturum á síðustu leiktíð og fór með liðinu í undanúrslit úrslitakeppninnar. Eftir að hann sagði starfi sínu lausu um mitt þetta tímabil tóku við Sigurður Ingimundarson og Jón Halldór Eðvaldsson, en þá var Magnús Þór Gunnarsson einnig áfram í þjálfarateymi með þeim líkt og hann hafði verið með Pétri.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur af þeim nöfnum sem nefndir hafa verið sem mögulegir næstu þjálfarar Keflavíkur.

Kjartan Atli Kjartansson

Kjartan er að sjálfsögðu starfandi þjálfari Álftaness og stendur í ströngu sem slíkur í úrslitakeppni Bónus deildarinnar. Hann hefur þó verið nefndur sem næsti þjálfari Keflavíkur af málsmetandi aðilum. Bæði var faðir hans leikmaður knattspyrnuliðs Keflavíkur á sínum tíma og þá hefur hann gert nógu vel með Álftanes svo hann ætti alltaf allavegana að fá símtal úr Keflavík eftir að tímabili hans lýkur. Þrátt fyrir að vera ekki gamall er Kjartan einnig líka nokkuð reynslumikill þjálfari, þá ekki síst þegar kemur að yngri flokkum og ef Keflvíkingar næðu honum til starfa hjá sér gætu þeir mögulega einnig nýtt visku hans á því sviði.

Falur Harðarson

Falur er sem stendur starfandi þjálfari KV í fyrstu deild karla. Gerði nokkuð vel með það lið á yfirstandandi leiktíð. Var hársbreidd frá því að koma eina atvinnumannalausa liði deildarinnar í úrslitakeppni á sínu fyrsta ári í deildinni. Reynslumikill sem þjálfari, hefur einnig þjálfað hjá Fjölni og gert bæði karla- og kvennalið Keflavíkur að meisturum. Falur að sjálfsögðu goðsögn bæði sem leikmaður og seinna þjálfari hjá Keflavík og því ekki ólíklegt að félagið taki stöðuna á honum fyrir komandi tímabil.

Sigurður Ingimundarson

Eftir margra ára fjarveru úr þjálfarastól Keflavíkur tók Sigurður það á sig að stýra liðinu út yfirstandandi tímabil. Nokkur áhætta sem hann tók með því að stíga inn í það starf, þar sem liðið virtist ekki á góðum stað. Honum tókst þó að afstýra því að liðið missti af úrslitakeppninni (þó þeir hafi verið lélegir í henni) og þar með hélt Keflavík 40 ára rák sinni í keppninni gangandi. Sigurður er sigursælasti þjálfari Keflavíkur frá upphafi og vilji hann setja saman lið Keflavíkur og stýra því á næstu leiktíð er ekki ólíklegt að hann fái að gera það.

Lárus Jónsson

Mjög háværar raddir hafa verið þess efnir að þjálfari Þórs í Þorlákshöfn Lárus Jónsson verði næsti þjálfari Keflavíkur. Eftir nokkur góð ár í Þorlákshöfn, sem meðal annars skiluðu félaginu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitil (á kostnað Keflavíkur) er talið að leiðir Þórs og Lárusar muni skilja fyrir næsta tímabil. Lárus er líkt og margir á þessum lista gífurlega reynslumikill þjálfari sem gert hefur vel á vel flestum stöðum sem hann hefur komið á. Væri gífurlega spennandi kostur fyrir Keflavík færi svo að hann væri á annað borð til í að taka á sig, mögulega, dagleg ferðalög úr Hveragerði til Keflavíkur.

Einar Árni Jóhannsson

Einar Árni yrði ekki fyrsti Njarðvíkingurinn til þess að taka við liði Keflavíkur færi svo hann væri næsti þjálfari þeirra. Gunnar Þorvarðarson þjálfaði liðið 1986 til 1988 og þá hefur Friðrik Ingi Rúnarsson einnig bæði þjálfað kvenna og karlalið Keflavíkur. Einar Árni hefur gífurlega reynslu sem þjálfari, verið með uppeldisfélag sitt í Njarðvík, sem hann gerði að meisturum árið 2006, lið Þórs í Þorlákshöfn, Hött, Breiðablik og nú síðast kvennalið Njarðvíkur sem hann gerði að bikarmeisturum fyrr á árinu.

Baldur Þór Ragnarsson

Baldur Þór er sem stendur þjálfari Stjörnunnar í Bónus deildinni. Hefur einnig gert vel sem slíkur. Er að upplagi úr Þorlákshöfn og eftir að hafa þjálfað Þór tók hann við Tindastóli áður en hann hélt til Þýskalands til þess að þjálfa hjá Ulm. Þá hefur hann einnig gert góða hluti með yngri landslið Íslands, sem og sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla. Orðrómurinn sem tengist mögulegri ráðningu Baldurs í Keflavík er að öllu leyti tengdur ráðningu VÍS á konu hans Rakeli Rós Ágústsdóttur sem þjónustustjóra í sveitarfélaginu. Ekki það, Baldur yrði frábær kostur fyrir Keflavík, ef hann á annað borð væri tilbúinn til að yfirgefa Stjörnuna.

Hörður Unnsteinsson

Samkvæmt nýjustu fregnum er KR-ingurinn Hörður Unnsteinsson á krossgötum þessa dagana eftir að hafa tryggt lið sitt upp í Bónus deildina. Hörður er að upplagi úr Borgarnesi og ásamt því að hafa þjálfað heimaliðið þar, Skallagrím, hefur hann áður verið á mála hjá Stjörnunni sem aðstoðarþjálfari og þá var hann í nokkur ár þjálfari í Noregi. Hörður væri áhugaverður kostur fyrir Keflavík, þar sem hann myndi líklega, líkt og Kjartan Atli, koma með nokkra reynslu inn í þjálfun yngri flokka Keflavíkur. Krossgöturnar tengjast að sjálfsögðu starfi hans sem fjölmiðlamanns, en ef hann tekur við karlaliði fyrir komandi tímabil getur hann væntanlega haldið áfram sem þáttastjórnandi Körfuboltakvölds kvenna. Eitthvað sem getur ekki haldið áfram ef hann fylgir liði sínu KR upp í Bónus deild kvenna.

Ingi Þór Steinþórsson

Líklegast hefur enginn oftar verið orðaður við Keflavík heldur en Ingi Þór. Kannski ekki að ósekju. Keflvíkingar hafa reglulega leitað að þjálfurum síðustu áratugi og Ingi Þór hefur oftar en ekki verið einhverstaðar að gera góða hluti og þar af leiðandi hefur hann að öllum líkindum fengið eitt eða tvö símtöl frá hverjum sem það hefur verið sem hefur verið formaður Keflavíkur hvers sinnis. Ingi er að upplagi úr KR, hefur gert garðinn frægann þar (síðast meistari 2019) sem og með Snæfell, sem hann var með í fjölmörg ár og gerði einnig að meisturum 2010. Sem stendur er hann aðstoðarþjálfari Stjörnunnar. Væri frábær kostur fyrir Keflavík. Væri því ekki úr vegi fyrir Keflavík að heyra í honum, bjóða honum að setja skikkjuna aftur á sig sem aðalþjálfari og stýra brotnu liði Keflavíkur aftur til vegs og virðingar.

Craig Pedersen

Einhver orðrómur hefur verið um að landsliðsþjálfara Íslands Craig Pedersen verði mögulega boðin staða þjálfara Keflavíkur. Skulum segja að af þessari upptalningu sé það hinsvegar það lang, lang ólíklegasta sem geti gerst. Craig hefur gert undur og stórmerki með íslenska landsliðið, og vel með þau lið sem hann þjálfaði áður í heimalandi sínu Danmörku, sér í lagi sem aðalþjálfari Svendborg Rabbits (danskur meistari í eitt skipti og í þrígang bikarmeistari) Hann hinsvegar býr í Danmörku og starfar þar. Færi svo hann færi að þjálfa félagslið aftur er einnig líklegt að það séu tilboð úr stærri deildum (með fullri virðingu) heldur en Bónus deildinni á borðinu.

Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á karfan@karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -