Heyrst hefur að Íslandsmeistarar Tindastóls muni mögulega semja á nýjan leik við hinn bandaríska Keyshawn Woods fyrir komandi tímabil. Til þessa hafa Stólarnir verið duglegir á leikmannamarkaðinum fyrir titilvörnina, en ásamt því að semja við flesta leikmenn meistaraliðs síðasta vors hafa þeir bætt við sterkum leikmönnum eins og Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni frá Oviedo á Spáni og Callum Lawson frá Val.
Keyshawn var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Tindastóls á síðasta tímabili, þar sem hann var meðal annars valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar eftir að félagið lyfti sínum fyrsta Íslandsmeistaratitil. Í 35 leikjum með Tindastóli á tímabilinu skilaði hann 19 stigum, 4 fráköstum og 4 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Þrátt fyrir að þessi mjög háværi orðrómur hafi verið síðustu daga um að Keyshawn muni á nýjan leik semja við Tindastól er samkvæmt heimildum Körfunnar talið gífurlega ólíklegt að svo verði fyrir komandi tímabil. Nú í júlí samdi leikmaðurinn við OGM Orman í fyrstu deildinni í Tyrklandi, en keppni hefst í henni innan skamms.
Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á [email protected]