Hér fyrir neðan eru nokkur af þeim atriðum sem Körfunni hafa borist til eyrna á síðustu dögum er varða leikmenn, þjálfara og félög á Íslandi. Tekið skal fram að hér er um að ræða óstaðfestar fregnir og því ber að taka þeim sem slíkum.
- Hávær orðrómur er þess efnis að Keflavík muni leggja mikið í sölurnar til þess að semja við lykilleikmann Vals Taiwo Badmus fyrir komandi tímabil.
- Landsliðsmennirnir Orri Gunnarsson og Hilmar Smári Henningsson, sem báðir léku fyrir Hauka á þar síðasta tímabili, eru sagðir næsta öruggir til Stjörnunnar.
- Þá eru Bjarni Guðmann Jónsson, sem er að koma úr bandaríska háskólaboltanum og Viktor Lúðvíksson, sem er að koma frá Þýskalandi, einnig sagðir líklegir til að ganga til liðs við Stjörnuna fyrir komandi tímabil. Þó er hefur það einnig heyrst að Viktor íhugi að ganga í raðir Keflavíkur.
- Miðherji Þórs Fotios Fotios Lampropoulos er samkvæmt orði götunnar á leiðinni til Hamars í fyrstu deildinni.
- Fyrrum þjálfari Vals í Subway deild kvenna Hjalti Þór Vilhjálmsson er sagður muni taka við sem aðstoðarþjálfari Álftaness fyrir komandi tímabil.
- Þá eru þeir Ragnar Jósef og Steinar Snær sagðir munu yfirgefa Álftanes og fara aftur heim í Blika.
- Israel Martin er samkvæmt orði götunnar á leiðinni frá Sindra í fyrstu deild karla, en líklegir arftakar eru sagðir Hallgrímur Brynjólfsson fyrrum þjálfari Fjölnis í Subway deild kvenna og Guðmundur Ingi Skúlason fyrrum þjálfari Þróttar í fyrstu deild karla.
- Ungstirni Selfyssinga Birkir Hrafn Eyþórsson er sagður vilja spila í efstu deild á næstu leiktíð og er talið líklegt að Haukar verði fyrir valinu, þó hafa bæði Stjarnan, Keflavík og KR einnig verið nefndir sem mögulegir áfangastaðir.
- Þorvaldur Orri Árnason leikmaður Njarðvíkur er sagður næsta líklegur til þess að ganga til liðs við KR fyrir komandi tímabil, en hann er sagður hafa hafa hafnað tilboðum bæði frá Njarðvík og Tindastóli.
- Þá er Sigvaldi Eggertsson fyrrum leikmaður Hauka einnig sagður líklegur til að ganga til liðs við KR fyrir komandi tímabil í Subway deildinni.
- Friðrik Anton Jónsson leikmaður KR verður samkvæmt orðrómi áfram í KR í Subway deildinni, en hann er sagður hafa hafnað samningi frá Stjörnunni.
- Eftir mikið tal um að Pavel Ermolinski myndi mögulega aftur taka við Tindastóli, er samkvæmt orðinu á götunni nú talið næsta öruggt að Benedikt Guðmundsson fyrrum þjálfari Njarðvíkur muni söðla um og setjast að í Skagafirðinum.
- Fyrsta deild kvenna er talin í einhverri hættu þar sem einhver lið þar eru ekki staðfest með á næsta tímabili. Breiðablik oftar en ekki nefnt til sögunnar í þeim skilningi, sem samkvæmt orðinu á götunni mun ekki vera með lið.
- Þá er einnig sá orðrómur í gangi að Fjölnir muni ekki tefla fram liði í Subway deild kvenna á næstu leiktíð.
- Arnþór Freyr Guðmundsson leikmaður Stjörnunnar er talinn líklegur til að yfirgefa félagið fyrir komandi tímabil, en ÍR og Fjölnir eru bæði sögð líkleg til þess að semja við hann.
- Óvíst er hvort Þorleifur Ólafsson muni halda áfram með Grindavík í Subway deild kvenna á komandi tímabili, en fari svo að hann yfirgefi liðið eru líklegir arftakar taldir Ólöf Helga Pálsdóttir Woods, Daníel Guðni Guðmundsson eða Erna Rún Magnúsdóttir.
- Styrmir Snær Þrastarson leikmaður Belfius Mons í Belgíu er sagður taka fundi með íslenskum liðum í næstu viku. Fari svo hann komi heim fyrir næsta tímabil er talið líklegt að Valur, Stjarnan og Tindastóll séu líklegustu áfangastaðirnir.
- Aðstoðarþjálfari London Lions Chris Caird er sagður hafa átt í viðræðum við bæði ÍR og KR.
- Matthías Orri Sigurðarson er talinn líklegur til þess að ganga inn í þjálfarateymi KV í fyrstu deild karla fyrir komandi tímabil.
- Eygló Kristín Óskarsdóttir leikmaður Keflavíkur er talin líkleg til að yfirgefa herbúðir meistarana fyrir komandi tímabil. Líklegir áfangastaðir eru taldir Njarðvík eða KR.
- Leikmaður Njarðvíkur Dominykas Milka er talinn líklegur til þess að framlengja samningi sínum við félagið.
- Dagur Kár Jónsson leikmaður Stjörnunnar er samkvæmt orði götunnar að íhuga að ganga til liðs við bróðir sinn Dúa Þór hjá Álftanesi fyrir komandi tímabil. Einnig hefur það verið nefnt að þriðji bróðirinn Daði Lár leikmaður Hauka muni mögulega einnig gangast í raðir Álftaness.
- Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er talinn líklegur til að yfirgefa Tindastól fyrir komandi tímabil í Subway deild karla og eru KR og Valur talin líkleg til þess að eiga í viðræðum við hann.
- Þá er Oddur Rúnar Kristjánsson leikmaður KR samkvæmt orðinu á götunni sagður á leið í Ármann.
Orðið á götunni er einungis til gamans og ef fólk hefur ábendingar um slúður skal hafa samband á [email protected]