spot_img
HomeFréttirÓmar til liðs við Grindavík: Komin sterk mynd á gula

Ómar til liðs við Grindavík: Komin sterk mynd á gula

17:00
{mosimage}

(Ómar Sævarsson leikur með Grindavík á næstu leiktíð en hann er ÍR-ingur að upplagi)

Silfurlið Grindavíkur hefur gengið frá nánast flestum lausum endum fyrir leiktíðina í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð. Nýjasta útspilið í Röstinni er að kraftframherjinn/miðherjinn Ómar Sævarsson hefur samið við Grindavík og því um gríðarlega blóðtöku að ræða fyrir ÍR-inga. Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindavíkur sagði í samtali við Karfan.is að hann væri ánægður með að fá Ómar í hópinn enda baráttuhundur þar á ferðinni. Þá hefur Páll Axel Vilbergsson skrifað undir nýjan samning og Arnar Freyr Jónsson er að klára sín mál við félagið.

,,Ómar er hörkuleikmaður og ég er ánægður með að hafa landað honum. Ómar frákastar sérstaklega vel og gerði það mjög vel í vetur, hann er duglegur baráttuhundur,“ sagði Friðrik og bætti við að ljóst hefði verið að Grindavík hefði þurft að fylla skarð Páls Kristinssonar sem mun ekki leika með gulum á næstu leiktíð.

,,Það er markt sammerkt með Páli Kristinssyni og Ómari Sævarssyni, Ómar er kannski meiri fjarki en Palli kannski meiri fimma en þeir eru báðir duglegir og svoleiðis menn þurfa öll liða að hafa,“ sagði Friðrik en að hans sögn hefur það gengið lygilega vel að manna Grindavíkurhópinn fyrir næstu leiktíð.

,,Það ætla flestir að halda áfram, Páll Axel skrifaði undir nýjan samning, Ómar er kominn til Grindavíkur og Brenton á eitt ár eftir af samningi sínum við okkur. Þá er Arnar Freyr að klára sín mál við félagið og Ólafur Ólafsson ætlar að vera með okkur á næstu leiktíð,“ sagði Friðrik en Ólafur lék með unglingaliði Eisbaren Bremerhaven í þýsku unglingadeildinni á síðustu leiktíð. En hvað með Nick Bradford, er hann á óskalistanum?

,,Nick átti að fara eftir tímabilið hér að spila á Filipseyjum en það datt eitthvað uppfyrir og nú skilst mér að hann sé kominn heim til Bandaríkjanna. Það er ekki spurning um að reyna að fá hann aftur ef það verður í boði í haust, ég myndi hoppa á það tækifæri ef það gæfist því Nick er þekkt stærð og frábær leikmaður,“ sagði Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari Grindavíkur.

Gulir voru því ekki lengi að fá mann til að feta í fótspor Páls Kristinssonar en ljóst er að ÍR-ingar hafa misst sterkan leikmann í Ómari Sævarssyni.

Ómar gerði 12,6 stig fyrir ÍR að meðaltali í leik á síðustu leiktíð og tók að jafnaði 11,5 fráköst.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -