spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓlukku Álftanna lokið í bili

Ólukku Álftanna lokið í bili

Álftnesingar fengu heimsókn úr Vesturbænum í 14. umferð Bónusdeildarinnar í kvöld. Fyrir utan nokkuð óvæntan en ljómandi góðan sigur í Keflavík á öðrum degi ársins hefur fátt glatt Álftirnar undanfarið. Fara þarf til 14. nóvember á síðasta ári til að finna annan sigur hjá liðinu enda situr liðið í 10. sætinu með 10 stig. Til að finna eitthvað jákvætt þá er stutt í næstu lið í töflunni fyrir ofan…en að vísu líka fyrir neðan!

Röndóttir gætu hins vegar vel hafa flogið á Álftanesið til leiks því þeir skildu Njarðvíkinga eftir í henglum á mánudagskveldið síðastliðið í bikarkeppninni. Þvílíkur skrímslasigur sem það var! Síðasti deildarleikur féll einnig þeirra megin en í öllu jafnari leik. KR-ingar sitja fyrir miðri deild með 14 stig en á 14 og 10 er aðeins fjögurra stiga munur eins og glöggir lesendur skilja.

Kúlan: Kúlan er þögul og myndræn að þessu sinni. Sjá má sjöum í alls kyns útgáfum rigna yfir Bessastaði í Kúlunni. Það merkir að ólánssemi heimamanna er lokið í bili, sæmilega öruggur sigur Álftnesinga verður niðurstaðan, 87-77.

Byrjunarlið

Álftanes: Okeke, Haukur, Klonaras, Hössi, James

KR: Granic, Gigliotti, Linards, Tóti, Þorri, 

Gangur leiksins

Eitthvað hefur verið talað um það að sóknarleikur heimamanna væri ekki nógu spennandi, ekki nógu hraður og skotnýtingin afleit. Það bar ekki á því í fyrsta leikhluta, leikurinn flaug af stað og bæði lið röðuðu niður þristum. Jafnt var 14-14 um miðjan leikhlutann og það voru frekar gestirnir sem settu stigin undir körfunni með sitt hávaxna byrjunarlið á meðan heimamenn héldu áfram að raða fyrir utan. Að leikhlutanum loknum höfðu Álftnesingar sett 36 stig á töfluna, þar af 21 í 10 þriggja stiga skotum. KR-ingar voru ekkert langt undan með 30 stig.

Heimamenn byrjuðu annan leikhluta betur og komu sér 8 yfir, 43-35, eftir þriðja þristinn frá Hössa. Lögmál meðaltalsins greip þá í taumana gestunum til hagsbóta og tveimur mínútum síðar höfðu þeir jafnað, 43-43, og Kjartan tók leikhlé. Bæði lið kólnuðu allnokkuð og minna var skorað fram að hálfleik. KR-ingar fengu líkast til að mati Kjartans alltof mikið af opnum skotum í raun allan fyrri hálfleikinn en allt var í járnum fram að hálfleik, staðan 54-52 í hléinu.

Liðin skiptust á körfum í upphafi seinni hálfleiks en heimamenn náðu svo upp svolítillri varnarstemmningu eins og Kjartan hefur sennilega beðið um í hálfleik. Um miðjan þriðja leikhlutann henti Hössi niður sínum fjórða þristi, setti stöðuna í 67-58 og Jakob blés til leikhlés. Það skilaði litlu, NBA-James setti nokkru síðar spjaldið-ofaní þrist og múrinn frægi reis í stöðunni 78-68. Viktor Steffensen kom svo með góðan mola fyrir Álftirnar í lok fjórðungsins með körfu góðri, víti og stolnum bolta þar sem hann endaði sjálfur upp í stúku! Staðan var 81-68 fyrir lokafjórðunginn og bjart yfir heimamönnum.

Vesturbæjarstórveldið lagðist ekkert niður í lokaleikhlutanum og stunduðu skemmdarverk á múrnum. Tóti var öflugur og raðaði niður nokkrum sniðskotum fyrir sína menn. Munurinn fór þó aldrei neðar en í 7 stig og heimamönnum tókst fljótt og örugglega að sinna viðgerðarvinnu. Segja má að björninn hafi verið unninn í stöðunni 91-79 eftir tröllatroð frá Hauki Helga Pálssyni, eitthvað sem við höfum ekki fengið að sjá mikið af að undanförnu! Að vísu var þá enn nóg eftir af leiknum en brúarsmíð gestanna náði skammt á veg. Lokatölur 111-100 sigur heimamanna í skemmtilegum stigaleik!

Menn leiksins

Justin James átti sinn besta leik fyrir Álftanes hingað til, setti 29 stig, tók 10 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Annars má hrósa öllu Álftanesliðinu fyrir frammistöðuna í kvöld, allir lögðu sitt af mörkum.

Tóti setti 27 stig fyrir röndótta og gaf 10 stoðsendingar, Granic var með 23 stig og tók 13 fráköst.

Kjarninn

Eins og Kjartan Atli kemur inn á í viðtali eftir leik þýðir ekkert fyrir þjálfara og leikmenn liðanna að velta sér upp úr stöðunni og spá í spilin eitthvert lengst inní framtíðina. Það myndi bara enda með ósköpum! En við áhugamennirnir getum gert það án þess að skaðast, nú geta Álftnesingar horft upp töfluna og látið sig dreyma um að klifra og klifra! T.d. er ljóst að Álftnesingar hafa innbyrðis betur gegn KR-ingum fari svo að liðin endi jöfn í töflunni. Það verður spennandi að sjá hvernig málin þróast hjá Álftunum.

KR-ingar eru eftir kvöldið hinum megin línunnar. Nú horfa þeir niður á hyldýpi fallbaráttunnar ekki síður en á öruggt sæti í úrslitakeppninni. Benda má á að Nimrod var ekki með í kvöld vegna meiðsla og auðvitað munar um þann leikmenn – jafnvel þó Jakob hafi tekið fram í viðtali eftir leik að hann geti ekkert nýtt fjarveru hans sem afsökun þar sem liðið hefur alveg tekið leiki án hans, nú síðast í risasigrinum á mánudagskvöldið!

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -