spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓlseigir KR-ingar lögðu Njarðvík á Meistaravöllum

Ólseigir KR-ingar lögðu Njarðvík á Meistaravöllum

KR lagði Njarðvík í kvöld í 6. umferð Bónus deildar karla á Meistaravöllum. Eftir leikinn er KR með þrjá sigra og þrjú töp á meðan Njarðvík er með fjóra sigra og tvö töp.

Fyrir leik

Eftir að hafa byrjað tímabilið á sterkum sigri gegn Tindastóli í Síkinu hefur nýliðum KR aðeins fatast flugið. Þó spilamennskan hafi kannski ekkert verið neitt hræðileg hefur þeim gengið erfiðlega að ná í sigra á síðustu vikum. Njarðvík aftur á móti fyrir leik eitt af betri liðum deildarinnar það sem af er og alveg örugglega það sem hefur komið hvað mest á óvart.

Gangur leiks

Heimamenn í KR hófu leik kvöldsins af miklum krafti. Tóku forystuna snemma, leiddu mest með 9 stigum í fyrsta fjórðungnum, en þegar hann var á enda munaði 4 stigum á liðunum, 27-23. Njarðvíkingar ná svo að snúa taflinu sér í vil í öðrum leikhlutanum. Fá góðar mínútur sóknarlega frá Dwayne Lautier, Dominykas Milka, Khalil Shabazz og ná að herða sig á varnarhelmingi vallarins. Munurinn 3 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-48.

Stigahæstur fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Dominykas Milka með 13 stig og við það bætti hann 10 fráköstum. Fyrir heimamenn var Nimrod Hilliard kominn með 10 stig.

Leikurinn er í járnum í upphafi seinni hálfleiksins. Liðin skiptast á snöggum áhlaupum, þar sem KR nær oftar en ekki að vera skrefinu á undan, en jafnt er fyrir lokaleikhlutann, 65-65. Heimamenn hefja fjórða leikhlutann á sterku 13-2 áhlaupi, þar sem gestirnir voru duglegir að láta hlutina fara í taugarnar á sér. Munurinn 10 stig þegar fimm mínútur voru til leiksloka, 77-69. Undir lokin ná heimamenn að verjast nokkuð álitlegu áhlaupi Njarðvíkur og sigra leikinn að lokum með 6 stigum, 86-80.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir í liði heimamanna í kvöld voru Linards Jaunzems með 21 stig, 14 fráköst og Nimrod Hilliard með 16 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir Njarðvík var Dominykas Milka atkvæðamestur með 18 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Honum næstur var Dwayne Lautier með 19 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hvað svo?

KR á næst leik komandi fimmtudag 14. nóvember gegn Íslandsmeisturum Vals í N1 höllinni, en Njarðvík leikur degi seinna föstudag 15. nóvember heima í IceMar höllinni gegn ÍR.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -