KR lagði Keflavík í kvöld í 16. umferð Bónus deildar karla, 97-93. Eftir leikinn er KR í 4. til 6. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan Keflavík er sæti neðar, í 7. til 10. sætinu með 14 stig.
Gangur leiks
Það voru gestirnir úr Keflavík sem voru skrefinu á undan á upphafsmínútunum, en undir lok fyrsta fjórðungs nær KR nokkuð sterku áhlaupi og eru þeir fjórum stigum yfir að leikhlutanum loknum, 27-23, en fremstur fór þar Linards Jaunzems með 12 stig á þessum fyrstu 10 mínútum leiksins. Í öðrum leikhlutanum nær KR byggja sér hægt og bítandi upp smá forystu og eru 11 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja, 59-48.
Stigahæstur fyrir KR í fyrri hálfleiknum var Linards með 19 stig á meðan Igor Maric var kominn með 10 stig fyrir Keflavík.
Heimamenn gera vel að hanga á forystu sinni í upphafi seinni hálfleiksins og eru þeir enn þægilegum 12 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 78-66. Í þeim fjórða nær Keflavík mjög góðu áhlaupi, vinna forskot heimamanna hratt niður og eru búnir að jafna leikinn þegar um sex mínútur eru til leiksloka. Þá nær KR að setja fótinn aftur á bensíngjöfina, setja nokkrar körfur og fá nokkur stopp og eru svo skrefinu á undan allt til leiksloka, 97-93.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestir heimamanna í leiknum voru Linards Jaunzems með 29 stig, 9 fráköst og Vlatko Granic með 24 stig og 13 fráköst. Þá var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson aðeins einni stoðsendingu frá þrennunni með 14 stig, 14 fráköst og 9 stoðsendingar.
Fyrir Keflavík var Igor Maric atkvæðamestur með 17 stig og 7 fráköst. Honum næstur var Jaka Brodnik með 8 stig, 5 fráköst og 11 stoðsendingar.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 6. febrúar, en þá fær Keflavík lið ÍR í heimsókn og KR mætir Njarðvík í IceMar höllinni.