spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓlseigir ÍR-ingar lögðu toppliðið í Skógarseli

Ólseigir ÍR-ingar lögðu toppliðið í Skógarseli

Nýliðar ÍR höfðu betur gegn toppliði Stjörnunnar í Skógarseli í Bónus deild karla eftir framlengdan leik, 103-101. Eftir leikinn er Stjarnan sem áður í efsta sæti deildarinnar með 22 stig á meðan ÍR er í 7.-8. sætinu með 12 stig.

Fyrir leik

Nokkuð ljóst að stór skörð voru höggin í leikmannahóp Stjörnunnar fyrir kvöldið þar sem bæði vantaði Viktor Jónas Lúðvíksson og Orra Gunnarsson. Heimamenn í ÍR öllu frískari, þar sem allir þeirra helstu leikmenn voru skráðir til leiks.

Gangur leiks

ÍR-ingar hófu leik kvöldsins af miklum krafti og leiddu með 5 stigum eftir um fimm mínútna leik. Gestirnir úr Garðabæ voru þó nokkuð snöggir að svara því og eru sjálfir skrefinu á undan að loknum fyrsta fjórðung, 22-24. Stjarnan opnar annan leikhlutann á sterku 2-11 áhlaupi. Heimamenn svara því nokkuð vel, en Stjarnan er þó með þægileg tök á leiknum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 38-50.

Stigahæstur heimamanna í hálfleik var Jacob Falko með 11 stig á meðan Hilmar Smári Henningsson var með 11 stig fyrir Stjörnuna.

Heimamenn hefja seinni hálfleikinn á 17-4 áhlaupi og eru komnir með forystuna þegar rúmar fimm mínútur eru eftir af þriðja leikhluta, 55-54. Nokkuð alvarlegt er fyrir Stjörnuna á þeim tímapunkti leiksins er að Hilmar Smári fékk sína fjórðu villu og þurfti í framhaldinu að setjast á bekkinn, en hann hafði verið besti leikmaður þeirra fram að því í leiknum. Hann átti eftir að koma aftur inná í fjórða leikhlutanum, en það var aðeins í stutta stund áður en hann fékk sína fimmtu og var útilokaður úr leiknum. Undir lok fjórðungsins ganga heimamenn aðeins á lagið, fá nokkur skot til að detta og eru 6 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 70-64.

Nokkuð jafnræði er á meða liðunum í upphafi þess fjórða, en ÍR heldur þó forskotinu vel inn í fjórðunginn og munar 6 stigum á liðunum þegar fjórar mínútur eru eftir, 81-75. Undir lok leiks gerir Stjarnan vel að jafna leikinn með tveimur vítum frá Jase Febres í stöðunni 88-88 og 5 sekúndur eftir. ÍR nær ekki skoti í lokasókninni og því þarf að framlengja.

Heimamenn leiddu svo alla framlenginguna þó Stjarnan hafi ekki verið langt undan. Gera sér aðeins erfitt fyrir á lokasekúndunum með því að klikka úr vítaskoti og Stjarnan fær boltann með rúmar fimm sekúndur á klukkunni 2 stigum undir, 103-101. Það kemur lítið úr því hjá þeim og ÍR uppsker nokkuð sterkan tveggja stiga sigur.

Kjarninn

Sóknarlega hreyfði Stjarnan boltann vel framan af í leiknum og uppskáru þeir oftar en ekki nokkuð opin skot. Nýting þeirra í þessu skotum var einnig nokkuð góð, en ÍR-ingar voru í miklum vandræðum að reyna koma sér inn í leikinn. Náðu því þó góðum spretti í upphafi seinni hálfleiksins, tóku forystuna og létu hana ekki af hendi. Munaði þar miklu um lykilleikmenn þeirra Matej Kavas og Jacob Falko sem mættu mun beittari til leiks í þeim seinni. Virkilega sterkur sigur fyrir ÍR, sem halda áfram að sanna sig eftir gífurlega þungt upphaf á tímabilinu.

Atkvæðamestir

Bestur í liði heimamanna í kvöld var Jacob Falko með 35 stig og 7 stoðsendingar. Honum næstur var Matej Kavas með 16 stig og 8 fráköst.

Atkvæðamestur fyrir Stjörnuna var Shaquille Rombley með 16 stig, 11 fráköst og Kristján Fannar Ingólfsson bætti við 18 stigum.

Hvað svo?

Næsti leikur Stjörnunnar er komandi sunnudag 19. janúar gegn Álftanesi í Forsetahöllinni í 8 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar. ÍR þarf hinsvegar að bíða öllu lengur eftir næsta leik þar sem þeir eru dottnir úr bikarkeppninni, en næsti leikur þeirra er á föstudaginn eftir viku 24. janúar gegn Þór í Þorlákshöfn.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -