Íslandsmeistarar Hauka hafa gengið frá ráðningu á Ólöfu Helgu Pálsdóttur Woods fyrir komandi tímabil í Dominos deild kvenna, en nú um helgina var ljóst að Ingvar Þór Guðjónsson myndi ekki halda áfram með liðið. Undir stjórn Ingvars unnu Haukar bæði deildar og Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili.
Sem leikmaður lék Ólöf með Grindavík og Njarðvík í efstu deild. Var hún meðal annars hluti af Njarðvíkurliðinu sem vann tvöfalt árið 2012. Þrátt fyrir að hafa að mestu leyti verið hætt síðan, lék hún þó tvo leiki með Grindavík í 1. deildinni á síðasta tímabili. Þá hefur hún einnig leikið fyrir A landslið Íslands.
Sem þjálfari hefur hún þjálfað yngri flokka með góðum árangri, en 10. flokkur hennar hjá Grindavík hefur aðeins tapað 3 leikjum af síðustu 62 og unnið 4 titla á síðustu 3 árum. Þá þjálfaði hún meistaraflokk félagsins á síðasta tímabili í 1. deildinni.
Aðspurð hvernig henni litist á nýja starfið sagði Ólöf:
"Ég er mjög spennt fyrir starfinu. Þetta er í rauninni draumastarfið með þennan frábæra hóp, aðstöðu og fagmannleg vinnubrögð allra sem koma að þessu"