spot_img
HomeFréttirÖlli er stærsta "hvað ef" íslensks körfubolta

Ölli er stærsta “hvað ef” íslensks körfubolta

Einu sinni á mannsævi, eða svo, koma til íþróttamenn sem bera það með sér strax frá upphafi að þeim er ætlað að verða í fremstu röð leikmanna sinnar íþróttagreinar. Oftast er það hæfileg blanda líkamlegs atgervis, hugarfars og einbeitingar sem gerir þeim kleift að skara fram úr. Örlygur Sturluson var vafalítið einn af þessum einstaklingum.
 
Ég skal viðurkenna að ég þekkti lítið til Ölla þar til hann sprakk út í úrslitakeppni DHL deildarinnar 1998. Sá nokkra leiki með honum og áttaði mig á því að þarna færi mikið efni. Ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir hversu ótrúlega fær hann var í körfuknattleik fyrr en ég sá heimildamyndina hans Garðars Arnar Arnarsonar “Ölli” í gær á frumsýningu í Háskólabíói. Held reyndar að flestir hafi verið í sömu skóm og ég hvað þetta varðar því á meðan tilþrif hans voru sýnd á stóra tjaldinum í þögninni í salnum, heyrðist alltaf annað slagið “Usssss” eða “Vááá” í fólki um allan sal. Fólk var bókstaflega gapandi yfir færni drengsins.
 
Mann skal þó ekki undra því tilþrifin sem sýnd voru í myndinni voru gersamlega úr öðrum heimi og eitthvað sem maður hefur ekki náð að venjast frá nýliða í efstu deild í íslenskum körfubolta – enn þann dag í dag.
 
Ölli spilaði sinn fyrsta leik í úrvalsdeild 7. desember 1997 á Akranesi gegn ÍA, þá aðeins 16 ára gamall. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að 16 ára guttar spili eitthvað í úrvalsdeild. Það vekur hins vegar furðu þegar þeir spila 33 mínútur, skora 10 stig, skjóta 3/6, gefa 7 stoðsendingar og stela 2 boltum – í sínum fyrsta leik meðal þeirra bestu í landinu.  Hann stökk fullmótaður inn í deildina, að því er virtist og einnig af því að dæma sem mætir menn sögðu í myndinni – Teitur Örlygsson, Friðrik Rúnarsson og Benedikt Guðmundsson svo einhverjir séu nefndir.
 
En eins og af tölfræðinni hérna að ofan að dæma þá gerði Ölli svo miklu meira en að skora. Hann vildi skara frammúr í öllum þáttum leiksins – sókn og vörn. Teitur frændi hans sagði að ef hann hefði spilað meira í deildinni hefði hann vafalítið stolið fleiri boltum en hann sjálfur, en Teitur er mesti þjófur úrvalsdeildar frá upphafi með 1.050 stolna bolta. Á leiktíðinni 1999-2000 stal Ölli 41 bolta í 13 leikjum sem gerir 3,2 stuldir í leik! Metið hans í Charlotte Christian skólanum stendur enn. Hann frákastaði eins og menn sem voru 10-20 cm hærri en hann og kom boltanum alltaf á opinn mann ef hann var að finna.
 
Í sókn hins vegar, var hann nánast óstöðvandi. Hann dripplaði ekki til hliðar, heldur keyrði alltaf áfram og þá beint á körfuna, eins og Friðrik Rúnarsson sagði í myndinni. Þegar inn í teiginn var komið var það líkamlegur styrkur og færni sem skilaði boltanum oftast í körfuna. “Pro hop” er hreyfing sem sést ekki mikið í íslenskum körfubolta en hann virtist vera búinn að fullkomna hana með góðum árangri.
 
Hefði Ölli lifað væri hann að spila núna í bestu deildum Evrópu, ef ekki í Bandaríkjunum, á því er ekki nokkur vafi. Íslenska landsliðshraðlestin væri líka enn hraðari með hann innanborðs. Örlygur Aron Sturluson er langstærsta “hvað ef” íslensks körfubolta og óvíst að annað eins komi til.
 
Heimildamyndin “Ölli” er frábær vitnisburður um hæfileika hans á körfuboltavellinum og er algert skylduáhorf fyrir unga körfuboltasnillinga sem vilja sjá hvað þarf til að skara fram úr. Orðabókin er eini staðurinn þar sem “velgengni” kemur á undan “vinnu”. Ölli svaf með boltann sinn, gerði æfingar á meðan hann spjallaði við vini sína. Hver einasta auða sekúnda var notuð til að bæta sig.
 
Ég hvet alla sem einhvern áhuga hafa á körfubolta til að sjá þessa mynd og alla sem vilja láta gott af sér leiða að styrkja Minningarsjóð Ölla sem hefur það að markmiði að styrkja börn sem minna mega sín á Íslandi til íþróttaiðkunar.
Fréttir
- Auglýsing -