Leikstjórnandinn Óli Ragnar Alexandersson hefur lagt skónna á hilluna og mun ekki leika með Þór Þ á næstu leiktíð líkt og á þeirri síðustu. Þetta staðfesti hann í samtali við Körfuna í gær.
Þessi 25 ára gamli bakvörður er uppalinn hjá Njarðvík en hefur einnig leikið með Snæfell áður en hann gekk til liðs við Þór Þorlákshöfn fyrir síðustu leiktíð. Ferill hans hefur því miður verið litaður af meiðslum hans en hann lék nánast ekkert í tvö ár fyrir síðustu leiktíð.
Í samtali við Körfuna viðurkenndi hann að skórnir væru komnir uppí hillu eins og staðan væri í dag. Óli útilokaði þó ekki að leika með B-liði Njarðvíkur, færi svo að liðið myndi senda lið til keppni á komandi leiktíð.
Þegar Óli Ragnar var spurður að því hvort þrálát meiðsli væru ástæðan fyrir ákvörðuninni sagði hann: „Ekki beint en þau hafa áhrif á þessa ákvörðun samt sem áður. Hef náttúrlega verið meira og minna meiddur siðan ég var 17 eða 18 ára.“ sagði Óli og bætti við:
„Auðvitað var ég búinn að vera frá vegna meiðsla í nánast 2 ár fyrir síðasta tímabil. Ég var ekki sáttur við að meiðslin væru að enda þetta hjá mér en náði mér svo þokkalega og byrja aftur fyrir síðasta tímabil. Ég fann fljótt að þetta var bara ekki eins og áður, allt hungur og metnaður var bara farinn, vantaði alla löngun til þess að halda áfram í þessu“
Óli Ragnar var með 2 stig og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í 16 leikjum á síðustu leiktíð fyrir Þór Þorlákshöfn.