spot_img
HomeFréttirÓli Gunnar eftir fyrsta tímabilið sitt í bandaríska háskólaboltanum "Búið að vera...

Óli Gunnar eftir fyrsta tímabilið sitt í bandaríska háskólaboltanum “Búið að vera draumur og markmið síðan maður var 12 ára”

KR-ingurinn Óli Gunnar Gestsson gekk síðastliðið haust til liðs við Chowan Hawks í bandaríska háskólaboltanum eftir gott tímabil með Selfoss í fyrstu deild karla. Var hann tímabilið 2021-22 að spila rúmar 25 mínútur í leik og skila á þeim 9 stigum, 6 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali í leik.

Eftir Íslandsmeistaratitil með sigursælum árgang KR

Óli Gunnar lék á sínum tíma upp alla yngri flokka KR og var kominn í meistaraflokk félagsins tímabilið 2019-20. Þaðan fór hann svo fyrst til Hamars í Hveragerði og seinna Selfoss í fyrstu deildinni áður en hann hélt vestur um haf. Þá var hann á síðasta ári hluti af sigursælu U20 liði Íslands sem endaði í öðru sæti Evrópumótsins og vann sér inn þátttökurétt í A deild komandi sumar.

Hluti af U20 liði Íslands 2022

Chowan Hawks leika í annarri deild bandaríska háskólaboltans og eru staddir í Murfreesboro í körfuboltafylkinu Norður Karólínu. Tímabil þeirra er nú búið og endaði skólinn með 14 sigra og 12 töp í heild á tímabilinu, en 12 sigra og 8 töp í deild.

Karfan hafði samband við Óla Gunnar og spurða hann aðeins út í þetta fyrsta ár með Chowan, hvernig stemningin sé í Norður Karólínu og hvað hann hyggist gera í framhaldinu.

Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?

“Bara gaman, búið að vera draumur og markmið síðan maður var 12 ára þannig að það er gaman að geta uppskorið eftir allan þennan tíma og sjá þetta verða að veruleika.”

Hvernig gekk þér persónulega á vellinum og í skólanum, ertu sáttur?

“Mér gekk vel að aðlagast að hlutunum hérna úti, gekk vel í skólanum og komst meira að segja á forsetalistann. Það er ekki alveg sömu söguna að segja frá inni á vellinum. Ég fór örugglega í gegnum erfiðasta árið mitt hingað til, körfuboltalega séð. Þetta er virkilega sterkt prógram og ég var eini true D2 leikmaðurinn í frontcourtinu. Aðrir leikmenn í minni stöðu eru transfer leikmenn úr góðum D1 skólum með 2 eða fleiri ár í háskóla undir beltinu. Ég upplifði að það skipti ekki máli hversu duglegur eða góður ég var á æfingum, ég gat bara ekki brotist inn í rotationið, sem eftir á að hyggja var búið að ákveða áður en við komum fyrst út í preaseason. Ég spilaði varla fyrir áramót en síðan kom sénsinn í janúar. Eftir 6 mínútur í fyrri hálfleik þá meiðist ég illa. Ég er síðan í kjölfarið settur í cat walker í einn og hálfan mánuð og tímabilið þar með kláraðist hjá mér í janúar.” 

Hvernig er stemningin í Norður Karólínu?

“Stemmningin er bara góð. Það er gott að búa hérna og það hefur allt gengið vel. Síðan er N.C. suðupottur háskólalífs hins almenna Ameríkana á austurströndinni og það eru margir risastórir ríkisháskólar í nágrenninu. Ég er náttúrulega með honum Veigari Páli hérna úti og síðan erum við líka með Ástrala í liðinu sem heitir Preston. Við þrír erum eiginlega bara alltaf saman, borðum saman og burstum í okkur tennurnar saman, þannig að maður er aldrei eitthvað einn að deyja úr heimþrá. Síðan er mannlífið gott þannig að ég get ekki kvartað.” 

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?

“Já, virkilega ólíkur. Menn búa almennt yfir mun meiri íþróttamannahæfileikum en heima. Á móti kemur þá eru leikmenn heima með mun betri leikskilning heldur en hérna úti. Persónulega þá mátti ég bara hlaupa eina línu inni á vellinum (frá körfu til körfu) og átti síðan bara að sitja í dunkers slottinu í sókn. Ef maður fór eitthvað út fyrir verklagið sem var búið að leggja fyrir mann þá mátti máður búast við hárblásaranum frá þjálfaranum. Ég strögglaði mikið við þetta í allan vetur og naut mín alls ekki í þessum körfuboltaleikstíl sem okkar lið spilaði í vetur.” 

Að hvaða leyti finnst þér þú vera þróast sem leikmaður þarna úti?

“Ég var settur á sér lyftingarprógram til að þyngja mig þegar ég kom út. Ég er þannig búinn að taka sjálfur eftir miklum bætingum líkamlega. Ég kom út einhver 92 kg. og er núna orðinn tæp 97 kg. í dag. Síðan náði ég líka góðum bætingum í sprengikraftinum. Ég var til dæmis kominn í 32 inch standing vertical rétt áður en ég meiddist. Síðan hefur maður alltaf einhvern frítíma og hef verið duglegur í að fara sjálfur út í sal að skjóta. Maður er að eyða einhverjum 40 klukkutímum á viku í æfingar á meðan tímabilið er í gangi þannig að manni gefst líka tími til að vinna í þeim hlutum sem manni langar til að bæta.” 

Þú fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastir til að verða meistarar?

Já, Ég og Veigar erum búnir að setja upp svona „Subway horn“ hérna úti og missum ekki úr leik. Sjónvarp símans er reyndar að reyna gera allt sem þeir geta til þess að við missum úr leik en þeir eru tvisvar búnir að henda mér út úr þessu drasl appi, sem þeir eru með, það sem af er þessari viku. Ég vona að Stólarnir taki þetta í ár. Síðan er úrslitakeppnin í 1. deildinni búin að vera mjög skemmtileg og ég sendi vinum mínum í Hamri hamingjuóskir með að hafa tryggt sig upp í Subway”

Þínir menn í KR á leiðinni í fyrstu deildina, hvað finnst þér um það? 

“Náttúrulega mjög sárt að sjá KR falla. Það eru góðir menn með stór plön um að rífa þetta aftur upp fyrir næsta ár. Gaman að sjá Illuga, Gunnar, Arnór og fleiri góða mætta líka. Ég sé KR ekki tapa leik í 1. deildinni á næsta ári.” 

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Já, ég verð áfram úti á næsta tímabili, mótlæti er til þess að sigrast á og allt það. Þjálfarinn vildi halda mér fyrir næsta tímabil en ég tók þá ákvörðun að fara í transferportalið fyrir næsta tímabil. Það var erfitt samtal sem fylgdi í kjölfarið við þjálfarann þar sem ég þurfti að mæta til hans eins og maður og tilkynna honum að ég vildi fari einhvert annað. Síðan verður náttúrulega líka erfitt að kveðja Veigar og Preston, sem maður hefur myndað sterk vinatengsl við þessa 9 mánuði sem við erum búnir að vera úti saman.”

“Það var mun meiri áhugi á mér frá öðrum skólum en ég bjóst við og ég hef líka fengið mikla aðstoð frá Chris, gamla þjálfaranum mínum frá því í fyrra, í gegnum þetta allt saman. Akkúrat núna er ég að reyna komast að niðurstöðu hvert mig langar að fara á næsta ári þar sem ég hef úr nokkrum spennandi valkostum úr að velja.” 

Fréttir
- Auglýsing -