Í framhaldi af grein minni fyrr í vikunni þar sem ég fjallaði um karlalið Keflavíkur og áhrif meiðsla á leikinn hjá þeim, er ekki ósvipaða sögu að segja af kvennaliði Hauka í vetur.
Haukar fengu til liðs við sig Haiden Denise Palmer í upphafi leiktíðar sem lék áður með Snæfelli við góðan orðstýr. Palmer stóð ekki undir væntingum Haukakvenna og var send heim um áramótin en í stað hennar kom Keira Robinson, leikmaður Skallagríms undanfarin tvö ár. Afar ólíkir leikmenn – Palmer er varnarmiðuð og Robinson sóknarmiðuð. Keira fingurbrotnaði í undanúrslitum VÍS-bikarsins og verður frá í mánuð ef marka má heimildir Körfunnar. Það er ekkert launungarmál að Haukar stefna alla leið á titil og vonar liðið að hún verði klár fyrir úrslitaviðureignina. Til að brúa bilið hafa Haukar fengið Palmer aftur í hópinn. Hvað þýðir það fyrir gengi liðsins í millitíðinni?
Haukar unnu fjóra leiki og töpuðu fimm á þeim tíma sem Palmer spilaði með þeim. Skoruðu 87,8 stig per 100 sóknir (fimmta hæsta í deildinni) og fengu á sig 87,3 (þriðja besta í deildinni). Hlutfall stiga inni í teig var 43% og hlutfall stiga andstæðings inni í teig var 35,5% – það allra lægsta í deildinni. Liðið skaut ekki vel á meðan eða 43,9% eFG% og fékk á sig 42,6%. Af þessu að dæma var sóknarleikurinn stirður en vörnin hélt vel vatni.
Eftir áramót með Robinson í Haukatreyju vann liðið tíu leiki og tapaði þremur. Skoruðu 104,7 stig per 100 sóknir (langhæst í deildinni) og fengu á sig áfram 87,3. Hlutfall stiga inni í teig var 38,7% á móti 44,4% stiga andstæðings inni í teignum. Liðið skaut 47,7% og fékk á sig 42,1%. Töluvert öflugra sóknarlið en varnaráherslur aðrar.
Ef við skoðum svo liðsuppstillingargögnin (e. lineup data) frá InStat með smá snúningi þá blasir akkúrat þetta við. Það munar um heil 21,9 stig per 100 sóknir með Keira Robinson inni á vellinum eða á bekknum, en munurinn er eilítið minni hjá Haiden Palmer eða 20,6 stig per 100 sóknir. Munurinn á ORtg (stig skoruð per 100 sóknir) þegar Keira Robinson er á vellinum og á bekknum er 14,5 stig en Palmer hefur mest áhrif á DRtg (stig andstæðings per 100 sóknir) en munurinn þar er 11,3 stig á því að hún spili eða sitji. Algildur munur milli ORtg og DRtg hjá Palmer er 1,9 en 7,2 hjá Robinson sem gefur vísbendingu um að áherslur í leiknum séu jafnari með Palmer á vellinum.
En hvers vegna tapa þá Haukar svona mörgum leikjum með Palmer í hópnum? Ein möguleg skýring er að Helena Sverrisdóttir lék fáa leiki með Haukaliðinu á þessum tíma vegna meiðsla. Helena og Palmer hafa einungis spilað rúmlega 58 mínútur saman í vetur á móti 318 mínútum með Helenu og Robinson. Uppstillingar með Helenu og Palmer saman eru með nettó 23,2 stig per 100 sóknir umfram andstæðinga sína og héldu andstæðingum í 75,8. Nettó munurinn hjá Helenu og Robinson var 17,8 stig per 100 sóknir og andstæðingum haldið í 84,4. Annað athugavert við leik andstæðinga Hauka á meðan Helena og Palmer spiluðu saman var að hlutfall þriggja stiga skota af heild var 30,8% á móti 37,2% með Robinson – á sama tíma dróst þetta hlufall saman í deildinni allri úr 39,1% niður í 37,5% fyrir og eftir áramót.
Úrtakið er lítið af gögnum um Helenu og Palmer en ætti þó að gefa einhverja vísbendingu um hvernig leikur liðsins verður þegar í úrslitakeppnina kemur – þar sem hægist á leiknum og varnir herðast. Lágt hlutfall stiga andstæðings inni í teig og færri tækifæri hans til að skora fyrir utan þriggja stiga línuna ætti að teljast líklegt til árangurs í úrslitakeppninni. Palmer skoraði kannski ekki 25-30 stig í leik með Haukum er áhrif hennar á leik liðsins eru hins vegar ótvíræð og engu minni en hjá Robinson – en á annan hátt.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá vinnast samt leikir á því að skora meira en andstæðingurinn og því afar mikilvægt að Robinson verði klár í slaginn fyrir lokaúrslitin – komist Haukar þangað.
Skýringar á þessum myndum og hvað liggur að baki þeim er að finna í þessari grein.