Grindavík lagði Ármann í kvöld í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppninnar, 109-101. Grindavík verður því eitt þeirra átta liða sem verður í pottinum þegar dregið verður á meðan að Ármann getur einbeitt sér að fyrstu deildinni.
“Við veittum þeim hörkukeppni og það var það sem við komum til að gera,” sagði Ólafur Þór Jónsson þjálfari 1. deildarliðs Ármanns, sem veitti Grindvíkingum hörkukeppni í bikarnum í kvöld í Grindavík. Góð frammistaða Ármenninga dugði þeim þó ekki til sigurs, en Ólafur sagði að liðið myndi nýta sér margt úr leiknum í komandi átökum vetrarins:
“Við vildum gera þeim lífið pínu óþægilegt; við sáum það í augunum á þeim fyrir leik að þeir vildu helst hafa þetta dálítið kósý. Það tókst hjá okkur, og við náðum að vera vel inni í leiknum fram í blálokin og ég er afar ánægður með mína menn – þeir lögðu sig alla í verkefnið. Við skorum 101 stig í Grindavík og hittum virkilega vel og jákvæð ára yfir liðinu eftir erfiðan og lélegan leik á föstudaginn.”
Ólafur segir að hann sé bjartsýnn fyrir tímabilið í heild sinni:
“Við teljum okkur hafa lið í höndunum sem ætti að geta gert góða hluti; við viljum vera í toppbaráttu og þótt það hafi gengið upp og ofan framan af vetri þá held égað við getum gert töluvert betur. Það hafa mikil meiðsli verið að herja á liðið og í þessum leik vantaði okkur fimm leikmenn sem allir hefðu fengið mínútur; þrír til fjórir byrjunarliðsleikmenn, og það munar um minna. Ef við náum að stilla upp okkar besta liði þegar þessi meiðslafaraldur er búinn þá tel ég að leiðin liggi bara upp á við hjá okkur – liðið er gott og á að mínu mati heima í toppbaráttunni.”