Betur fór en á horfðist þegar Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson lenti illa á bakinu í leik gegn Stjörnunni í Ásgarði á fimmtudaginn. Ólafur fékk strax sterk verkjalyf eftir leikinn en eftir skoðun og myndatöku hjá læknum var ekkert alvarlegt að sjá og hann fór heim. Hann yrði látinn vita ef eitthvað annað fyndist.
Sú símhringing hefur hins vegar ekki komið og er Ólafur bjartsýnn á að þetta verði þá ekki verra. Hann er enn helaumur í bakinu og “það er bara parkódín og íbúfen og þannig stemning.”
Ólafur sagðist annars í stuttu spjalli við Karfan.is vera brattur en hafi ekkert verið að æfa neitt síðan. Hann sér þó ekki fram á það að þetta haldi sér frá næsta leik, en ekkert er þó öruggt í því.
Ólafur hefur áður glímt við bakmeiðsli og sagðist meðal annars hafa farið í meðferð við þeim rétt fyrir leikinn gegn Stjörnunni. Hann segist sjá fram á áframhald á þeim á næstunni.
Mynd: Ólafur Ólafsson rétt eftir byltuna í leiknum gegn Stjörnunni. (Snorri Örn Arnaldsson)