spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓlafur Jónas og Finnur Freyr með meistaraflokka Vals á næsta tímabili

Ólafur Jónas og Finnur Freyr með meistaraflokka Vals á næsta tímabili

Körfuknattleiksdeild Vals hefur boðað blaðamannafund kl.13 í dag að Hlíðarenda þar sem þjálfarar næsta tímabils hjá meistaraflokki kvenna og karla verða tilkynntir. Nöfn þjálfaranna liggja nú þegar fyrir.

Ólafur Jónas Sigurðsson og Finnur Freyr Stefánsson munu taka við taumunum hjá kvenna- og karlaliði Vals á næsta keppnistímabili.

Finnur Freyr mun taka við karlaliði Vals. Hann þjálfaði seinast fyrir Val þegar hann var á Íslandi, en þá sem þjálfari yngri flokka þeirra. Þar áður var hann fimmfaldur Íslandsmeistari með karlaliði KR þar sem hann hóf þjálfaraferil sinn og vann öll árin sem að hann þjálfaði meistaraflokk karla hjá Vesturbæjarliðinu. Finnur hélt út til Danmerkur á síðasta tímabili til að þjálfa lið Horsens í úrvalsdeild karla þar áður en að heimsfaraldurinn skall á. Hann hafði þá leitt liðið til úrslita bikarsins í Danmörku. Finnur er líka í landsliðsþjálfarateymi karla og er yfirþjálfari yngri landsliða Íslands.

Ólafur Jónas mun taka við kvennaliði Vals og mun Helena Sverrisdóttir vera aðstoðarþjálfari með honum. Ólafur hefur þjálfað meistaraflokk kvenna hjá ÍR við góðan orðstír undanfarin ár og liðið hefur vaxið með hverju árinu undir hans stjórn. Hann hefur einnig verið aðstoðarþjálf­ari U20 ára landsliðs kvenna.

Viðtöl við þá báða kemur seinna í dag að blaðamannafundinum loknum.

Fréttir
- Auglýsing -