spot_img
HomeFréttirÓlafur gerir upp sögulegt sumar með U20 kvenna "Með rétta hugarfarinu og...

Ólafur gerir upp sögulegt sumar með U20 kvenna “Með rétta hugarfarinu og vinnusemi þá munum við halda áfram að bæta okkur sem landslið”

Undir 20 ára kvennalið Íslands lauk keppni á dögunum á Evrópumótinu í Sófíu í Búlgaríu. Liðið tapaði lokaleik sínum á mótinu gegn Tékklandi sem var upp á þriðja sætið, en árangurinn engu að síður sögulegur, þar sem ekkert yngra landslið kvenna hafði áður endað ofar en í fjórða sæti þessarar keppni.

Íslenska liðið þurfti að berjast við fremur óvenjulegar aðstæður um miðbygg keppninnar í Búlgaríu. Þar sem einhverjir leikmenn liðsins höfðu orðið fyrir matarsýkingu sem átti upptök sín í matsalnum þar sem liðið hafðist við á meðan það var við keppni í Sófíu og þurfti meðal annars að flytja einn leikmann íslenska liðsins á sjúkrahús til aðhlynningar. Reyndar var það svo önnur lið í keppninni áttu við sömu vandamál og vantaði leikmenn hjá nokkrum liðum í nokkrum leikjum mótsins.

Aðstæðurnar semsagt ekki upp á það besta, en íslenska liðinu tókst samt sem áður að enda á þeim besta árangri sem yngra landslið kvenna hefur nokkurntíman skilað í sögunni. Karfan hafði samband við Ólaf Jóna Sigurðarson þjálfara Íslands og spurði hann út í hvernig hann teldi sumarið hafa gengið hjá hópnum, hvort árangurinn á EM hafi komið á óvart og hvað hann haldi að þurfi að gerast svo liðið geti haldið áfram að taka skref upp á við í framtíðinni.

Hvernig fannst þér verkefni sumarsins ganga?

“Verkefni sumarsins gengu vonum framar. Svona eftir á að hyggja þá hefði ég kannski viljað fá aðeins lengri tíma með liðinu hérna á Íslandi en það er alltaf erfitt að finna tíma þar sem allir komast. Þar sem þetta er nógu mikið vinnutap fyrir leikmenn og erfitt fyrir leikmenn utan að landi að finna sér gistingu og vinnu í bænum allt sumarið. Þetta eru kannski ekki vinsælustu sumarstarfmennirnir, þurfa mikið frí útaf þessum verkefnum.

Viðtókum ákvörðun um að nota NM sem æfingaleiki þar sem við prófuðum ýmsa hluti með liðið, eins og td. mismunandi lineup, pressuvarnir, skiptivörn, contain vörn og svo margt fleira. Í Svíþjóð fengum við góða mynd á hverjir væru styrkleikar liðsins og reyndum að fókusa svolítið á að nýta okkur þá.”

Hvernig fannst þér þróunin vera á liðinu yfir þessa mánuði?

“Þróunin á liðinu var mun betri en við þorðum að vona. Þessi hópur er alveg einstakur hvað varðar liðsheild og samheldni og það hjálpar okkur þjálfurum alveg svakalega mikið að ná árangri þegar leikmenn eru svona opnir fyrir þjálfun. Einnig tóku leikmenn sínu hlutverki ótrúlega vel, en til þess að geta náð langt með landslið þá eru margir leikmenn sem þurfa að fórna hlutum sem þær gera mögulega með sínu félagsliði í þágu hópsins. Fyrir það er ég mjög þakklátur því öðruvísi væri þetta ekki hægt.

Við sáum snemma að það var ansi mikið spunnið í þennan hóp og í raun áður en við byrjuðum að æfa saman þá vissum við þjálfarateymið að þessi hópur gæti gert stóra hluti. Þannig að strax þegar við hittum hópinn þá sögðum við þeim að þessi hópur gæti gert einhverja alvöru hluti og það var einhvern veginn alltaf stefnan hjá okkur.”

Frábær árangur á EM, var það eitthvað sem kom á óvart?

“Stefnan var alltaf sett á að vera í topp 8 þegar við lögðum af stað. En um leið og við vorum komin þangað sáum við að við gátum spilað við allar þessar þjóðir og við vildum meira. Þessar stelpur eru svo miklar fyrirmyndir og miklir dugnaðarforkar og það er svo augljóst að markmiðin voru alltaf liðstengd. Svo ég svari spurningunni þá nei þetta kom eiginlega ekki á óvart við vorum eiginlega búin að segja okkur sjálfum að þetta lið myndi gera einhverja ótrúlega hluti.”

 Var ekkert erfitt að eiga við veikindin sem komu upp á mótinu?

“Það var alveg ótrúlega erfitt að eiga við þessi veikindi og horfa uppá hvern leikmannin hrynja á fætur öðrum og þurfa að fylgja leikmanni á spítala. Þetta er með því erfiðara sem ég hef upplifað sem þjálfari. Við í raun vitum ekkert hvað þetta er þegar leikmenn og þjálfarar úr öllum liðum fara að hrynja. Það líður yfir leikmenn í matsalnum, við þurftum að bera fólk út í bíl því það tekur sjúkrabíl margar klukkustundir að koma. Á þessum tíma vitum við ekki hvort þetta sé smitandi pest eða matareitrun og við fáum í raun engar upplýsingar. Það veikjast 13 af 16 manna teyminu okkar í þessari ferð og það er hreint út sagt ótrúlegt að við þurftum ekki einu sinni að mótivera leikmenn til þess að spila. Það voru allir tilbúnir að gefa líf og sál í þetta verkefni og reyna að klára mótið. Ég er alveg ótrúlega stoltur af þessum hópi, það hefði verið auðvelt að leggjast niður og gefast upp. En það var aldrei option fyrir þetta lið.”

Sérðu Ísland taka fleiri skref á næstu árum, hvað þarf að gerast til að svo verði?

“Já ég sé bara jákvæða hluti í íslenskum kvennakörfubolta á næstu árum. Við erum að fá upp alveg helling af hæfileikaríkum stelpum sem eiga eftir að gera einhverja geggjaða hluti. Í fyrra náum við 6 sæta og núna 4 sæti í U20 og þessar stelpur eru að setja fordæmi um þann standard sem við eigum að vera á. Nú er bara næsta skref og það er að komast upp í A deild. Með rétta hugarfarinu og vinnusemi þá munum við halda áfram að bæta okkur sem landslið.

En það þarf líka að fá inn einhversskonar styrki svo að þessir krakkar geti farið í landsliðsverkefni án þess að þurfa að borga svona svakalegar upphæðir. Það vill enginn ráða þau í vinnu því þau eru meira og minna úti allt sumarið. Þetta verður bara að laga því við erum með marga framtíðarleikmenn sem mögulega gefa ekki kost á sér í þessi verkefni útaf kostnaði.”

Fréttir
- Auglýsing -