Það var allur körfuboltapakkinn í boði í Grindavík í kvöld þegar heimamenn unnu sigur á Íslandsmeisturum Þór úr Þorlákshöfn, 86 – 85, í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Staðan er því jöfn og báðir leikirnir hafa verið spennandi og skemmtilegir.
“Þetta var svakalegur slagur hér í kvöld og átökin ansi hressileg oft á köflum. En þetta er úrslitakeppnin og svona leikir – svona sigrar – eru ástæðan fyrir því að maður mætir til leiks ár eftir ár og misþyrmir skrokknum á sér,” sagði Ólafur Ólafsson léttur eftir leik. “Þetta er bara svo skemmtilegt og gefandi.”
Óli segir að sínir menn hafi fulla trú á að geta slegið Þórsara úr keppni, enda hafi báðir leikirnir verið jafnir og spennandi.
“Við vorum dálítið miklir klaufar í fyrri leiknum, en hann áttum við að klára. Við gerðum það í kvöld og við vitum vel að við þurfum að vinna einn leik í Þorlákshöfn til að komast áfram – og við munum reyna allt hvað við getum til að vinna næsta leik og komast yfir. Ég hef fulla trú á liðinu,” sagði Óli og bætti við:
“Mér fannst þeir komast upp með ansi mikla hörku gagnvart Ivan, sem þeir ráða ekki vel við undir körfunni, og þetta er eitthvað sem mér fyndist að ætti að skoða. Hann er nánast í henglum eftir hvern leik og hann getur ekkert æft. Hann fær að finna svakalega fyrir því inni í teig, því hann er illviðráðanlegur þar. Ég er ekki vanur að kvarta og kveina, en mér finnst Ivan ekki fá alveg nógu sanngjarna meðferð og það virðist vera þannig að það megi taka fastar á honum af því að hann er stór og sterkur; eins og ég sagði, þá mætti alveg skoða þetta.”