10:13
{mosimage}
22 ára Texasbúi, Ifeoma Okonkwo, mun spila með kvennaliði Hauka í vetur en hún kláraði nám við Northwestern-háskólann síðasta vor og er því á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku. Okonkwo er 182 sm framherji og fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður bæði í sókn og vörn. Okonkwo lék alls 112 leiki fyrir Northwestern-háskólann og var með 9,9 stig og 5,6 fráköst að meðaltali í þeim en hún hækkaði sig bæði í stigum og fráköstum öll fjögur árin sín í skólanum.
Okonkwo var bæði stigahæst (15,0 stig í leik) og frákastahæst (7,2) á lokaári sínu í Northwestern auk þess að stela flestum boltum (2,18) og nýta skotin best (49,8%) af öllum í hennar liði. Hún var líka valin í úrvalshóp Big-Ten riðilsins á lokaári í sínu en í það kjósa þjálfarar liðanna í riðlinum og fréttamenn.
Nú er að sjá hvort Ifeoma haldi uppi hefðinni en síðustu fjórir bandarísku leikmenn kvennaliðs Hauka hafa allar unnið titil með liðinu. Haukar urðu bikarmeistarar árið 2005 með Ebony Shaw, Powerade-meistarar 2005 með Ke-Ke Tardy og Íslandsmeistarar 2006 með Megan Mahoney auk þess að Tardy og Mahoney tóku báðar þátt í að vinna deildarmeistaratitilinn í fyrravetur.