spot_img
HomeFréttirÓíþróttamannslegum villum hefur fjölgað um 28% frá síðustu leiktíð

Óíþróttamannslegum villum hefur fjölgað um 28% frá síðustu leiktíð

UPPFÆRT 20. MARS 2018

Allar myndir hafa verið uppfærðar með tölum eftir lok deildarkeppninnar.

 

Landsleikjahlé gefur af sér tíma til að skoða hin ýmsu mál dýpra ofan í kjölinn. Greiningardeild Karfan.is hefur haldið utan um tölfræði í dómgæslu Domino's deildar karla á síðustu tveimur leiktíðum og kominn er tími til að bera þær saman. Eftirfarandi samantekt tekur fyrir óíþróttamannslegar villur, dæmd skref og tæknivillur yfirstandandi leiktíðar auk 2017 leiktíðarinnar. 

 

Breytingar á leikreglum FIBA

Breytingar voru gerðar á leikreglum FIBA í sumar sem fyrirséð var að myndu hafa umtalsverð áhrif á leikinn eins og hann hefur verið spilaður undanfarin ár. Vafaatriði varðandi skrefadóma voru tekin af með breytingu á grein 25.2 í reglum FIBA þar sem það var gert heimilt að taka tvö skref eftir að leikmaður hefur fyllilega gripið boltann. Þannig var skrefið sem leikmaður tók í þeirri andrá sem hann tók boltann upp eftir knattrak tekið út úr talningunni. Breytingin kemur í kjölfar þeirrar breytingar sem NBA deildin gerði á skrefareglum sínum fyrir nokkrum árum en stefna FIBA hefur ávalt verið að reyna að hafa körfubolta eins alls staðar í heiminum.

 

Hin breytingin sem vert er að nefna var endurskilgreining á grein 37.1.1 í reglum FIBA þar sem öll brot á leikmanni sem er að hefja eða kominn í hraðaupphlaup eru dæmd sem óíþróttamannslegar villur. Orðalag reglubreytingarinnar er á þá leið að öll snerting varnarmanns á sóknarmanni við slíkar aðstæður, sem ekki er hægt að túlka sem tilraun til að stela bolta eða "innan anda eða tilætlunar reglnanna", skuli vera dæmd óíþróttamannsleg villa. Markmiðið með þessari breytingu var að takmarka brot leikmanna sem einvörðungu var ætlað að hindra hraðaupphlaup andstæðinga og hægja þar með á leiknum.

 

Áhrif þessara breytinga eru blönduð. Breytingin á skrefareglunni hafði ekki eftirtektarverð áhrif á leikinn sjálfann en þegar tölfræðin er skoðuð eru áhrifin auðsjáanleg. Hvað varðar óíþróttamannslegur villurnar voru áhrifin bæði sjáanleg fyrir áhorfendur og áþreifanleg fyrir leikmenn.

 

Óíþróttamannslegar villur

Á mynd 1 hér að neðan sést uppsafnaður fjöldi dæmdra óíþróttamannslegra villna á yfirstandandi leiktíð í samanburði við 2017. Leiknir hafa verið 114 leikir það sem af er þessari leiktíð og nær því samanburðurinn til sama fjölda leikja á 2017 leiktíðinni. Af grafinu má sjá að það gliðnar snemma milli línanna eða strax í annarri umferð. Ef þið færið bendilinn yfir línurnar sjáið þið gildin sem fyrir þeim standa. Alls hafa verið dæmdar 102 óíþróttamannslegar villur það sem af er yfirstandandi leiktíð en á sama tíma á síðustu leiktíð höfðu 80 slíkar verið dæmdar í deildinni. Það er aukning upp á 28% milli ára. Hallalína þróunarinnar gefur til kynna að talan verði um 119 þegar deildarkeppnin er liðin, en alls voru dæmdar 93 í deildarkeppninni 2017. Áhrifin er ótvíræð og aukningin mikil en hafa verður í huga að þessi leiktíð gæti farið að mestu í að aðlagast breyttu regluverki hvað þetta varðar og áhrifin muni jafnast út seinna meir.

 

 

 

 

Skref

Skrefadómum hefur fækkað svo um munar eins og sjá má á mynd 2 hér fyrir neðan. Alls hafa skref verið dæmd 114 sinnum það sem af er yfirstandandi leiktíð en 292 skrefadómar höfðu verið dæmdir á sama tíma í fyrra en það er samdráttur upp á 61%. Hallatala 2018 línunnar gefur til kynna að dómarnir verði um 133 þegar deildarkeppni lýkur en alls voru dæmd skref 335 sinnum á 2017 leiktíðinni. Áhrifin eru eins og áður sagði ekki sjáanleg í leiknum sjálfum fyrir utan það leikurinn stöðvast sjaldnar vegna skrefadóma. Þrátt fyrir það ber ekki á þessum áhrifum í fjölda tapaðra bolta en alls höfðu tapast 3.285 boltar eftir 19 umferðir 2017 en sléttir 3.200 boltar tapast á sama tíma á yfirstandandi leiktíð, sem gefur til kynna að öðrum töpuðum boltum fjölgar um 93 í ár.

 

 

 

 

Tæknivillur

Tæknivillur (mynd 3 hér að neðan) á þessari leiktíð og á 2017 leiktíðinni haldast í hendur lengst af eða allt þar til í núna í janúar þegar þær tóku kipp upp á við. Þær virðast þó vera að ná aftur sama takti eftir 114 leiki en aðeins munar þremum tæknivillum milli ára eða 68 fyrir 2018 leiktíðina og 65 fyrir 2017 leiktíðina. Alls voru dæmdar 78 tæknivillur í deildarkeppni síðustu leiktíðar og allt útlit fyrir að yfirstandandi leiktíð ljúki með svipuðum fjölda.

 

 

 

 

 

Að lokum er svo samantektartafla (tafla 1 hér að neðan) yfir helstu atriði sem dæmd eru í Domino's deild karla til fróðleiks og skemmtunar og þær upplýsingar brotnar niður á hvert lið og einnig borið saman við 2017 leiktíðina. Af þessum tölum má sjá margt fróðlegt eins og t.d. að lið Hattar spilar greinilega mjög fast með flestar villur dæmdar á liðið en fá jafnfram fæstar villur á andstæðinga sína og er því mismunurinn mestur hjá Hetti eða 85 villur. Besta varnarlið deildarinnar, KR fær á sig afar fáar villur en villujöfnuðurinn er hvað minnstur hjá Þór Þorlákshöfn eða -1. Haukar eru prúðasta lið Domino's deildar karla með ekki eina einustu tæknivillu dæmda á sig en þær voru þrjár hjá liðinu á 2017 leiktíðinni.

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -