Netheimar hafa logað eftir leik 2 í Grindavík á föstudaginn, þar sem Martin Hermannsson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu þar sem hann stöðvaði hraðaupphlaup Jóns Axels Guðmundssonar á lokamínútum leiksins. Að mati flestra var þetta ekki á nokkurn hátt óíþróttamannsleg framkoma hjá Martin en hvað var þá Leifur Garðarsson að flauta á?
Snillingarnir hjá Leikbrot birtu í gær myndband af þessu broti og skvettu þannig olíu á eld gagnrýnisradda.
Það er ekki að sjá á myndbandinu að Martin ætli JAxel eitthvað illt með þessu broti. Hann teigir sig eftir boltanum, snertingin er þó einhver en það er hraðinn á leikmönnunum sem veldur því að JAxel fellur við.
Það fyndna er hins vegar að þetta er, strangt til tekið, hárréttur dómur hjá Leifi. Hárréttur dómur skv. þeim leikreglum FIBA sem nú eru í gildi. Regla 36.1.3 undir 36. gr. leikreglanna segir:
“Ef leikmaður veldur snertingu við mótherja aftanfrá eða til hliðar í tillraun til að stöðvar hraðaupphlaup og það er enginn mótherji milli sóknarleikmanns og körfu mótherja er það óíþróttamannsleg villa.”
Það eru þessi þrjú orð “eða til hliðar” sem valda því að Leifur þurfti að flauta á þetta. Varnarmaður má ekki stöðva hraðaupphlaup sóknarmanns með broti, aftan frá eða til hliðar við hann, sama hve mikil eða lítil snertingin er.
Leikur þrjú verður í DHL höllinni annað kvöld.
Myndband: Leikbrot.is