spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÖflugur fyrri hálfleikur lagði grunn að Njarðvíkursigri

Öflugur fyrri hálfleikur lagði grunn að Njarðvíkursigri

Ljónynjurnar í Njarðvík hafa tekið 1-0 forystu í úrslitum 1. deildar kvenna gegn Grindavík. Lokatölur í þessari fyrstu viðureign liðanna voru 69-49 Njarðvík í vil. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki hreppir í laun sæti í Domino´s-deild kvenna á næstu leiktíð.

Saga leiksins


Í kvöld komu liðin köld til leiks, Njarðvík kveikti svo á perunni, slökktu svo ljósin í síðari hálfleik á meðan gestirnir hertu varnarleikinn en heimakonur höfðu drenað tankinn nægilega hjá Grindavík svo þær komust ekki nærri og Njarðvík tók því 1-0 forystu.

Leiklýsing


Eins og við var að búast var smá gæsahúð í báðum liðum á upphafsmínútunum en þegar leikmenn tengdu þá voru það heimakonur sem tóku forystu 15-6 þegar sjö mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta og Ólöf bað um leikhlé fyrir gestina.

Með Helenu Rafns og Chelsea í góðum gír á varnarendanum jók Njarðvík forystu sína í 25-10 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta. Chelsea með 11 stig og Helena 8 hjá Njarðvík en Hulda Björk með 8 hjá Grindavík og gestirnir komnir í bullandi vandræði strax á upphafsmínútum opnunarleiksins.

Í öðrum leikhluta gekk Njarðvíkurvörninni áfram vel að þvinga fram tapaða bolta hjá gestunum með þéttum varnarleik. Janno helsti stigaskorari Grindvíkinga var aðeins komin með tvö stig eftir 15 mínútna leik og heimakonur leiddu 34-17 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks.

Jafnræðið var aðeins meira með liðunum í lok annars leikhluta en Njarðvík með Chelsea í broddi fylkingar leiddi 46-25 í hálfleik. Vilborg Jónsdóttir var á dreifaranum með 7 stoðsendingar í fyrri hálfleik en Chelsea með 20 stig, 5 fráköst og 4 stolna bolta og Helena Rafnsdóttir með 8 stig og 4 fráköst. Hjá Grindavík sveið gestunum dræmt gengi Janno á sóknarendanum sem var bara með 2 stig í hálfleik en Hulda 8 og mikilvægt að Janno næði betri takt við síðari hálfleik en þann fyrri.

Skotnýting liðanna í hálfleik:
Njarðvík: 2ja 51% – 3ja 44%
Grindavík: 2ja 36% – 3ja 25%

Það var allt annað og mun ferskara Grindavíkurlið sem mætti inn í síðari hálfleikinn, 4-11 skvetta á heimakonur og staðan 50-36 og Rúnar tók leikhlé til að lesa yfir sínum konum sem virtust hafa gleymt ákefðinni í varnarleiknum.

Þriðji leikhluti var í hróplegu ósamræmi við fyrstu tvo hjá heimakonum og vann Grindavík leikhlutann 8-14 og staðan því 54-39 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Horfur Grindvíkinga umtalsvert betri þegar hér var komið við sögu og Janno farin að skora á ný með 6 stig í leikhlutanum og 8 stig samtals til þessa en betur mátti ef duga skyldi.

Skipulag gestanna hélt áfram að virka í fjórða, Grindavík minnkaði muninn í 58-46 með 4.30mín eftir af leiknum og gestirnir svo sannarlega búnir að sauma upp í götin í vörninni. Hekla Eik var að spila eins og herforingi hjá Grindavík og stóra spurningin hvort ríflega fjórar mínútur myndu duga gestunum til að jafna metin?

Aðeins mínútu síðar fékk Janno sína fimmtu villu þegar hún elti Chelsea Jennings nánast út af leikvellinum, dýr villa og stigaskorari Grindavíkur því kominn af velli og úr leik með aðeins 8 stig í kvöld. Þetta reyndist of dýru verði keypt fyrir gestina og Njarðvík sigldi 1-0 stöðu í höfn með 69-49 sigri.

Bestu menn vallarins:
Chelsea Jennings gerði 30 stig, tók 7 fráköst og var með 5 stolna bolta í liði Njarðvíkinga. Vilborg Jónsdóttir hótaði þrennu í kvöld fyrir Njarðvík með 9 stig, 8 fráköst og 11 stoðsendingar. Þá stimplaði Helena Rafnsdóttir inn tvennu með 10 stig og 10 fráköst. Hjá Grindavík var Hekla Eik Nökkvadóttir með 13 stig og 4 fráköst og einkar beitt þegar mest lét við í síðari hálfleik. Hulda Björk Ólafsdóttir bætti við 12 stigum en Janno Jay Otto komst ekki nægilega vel í takt við leikinn með 8 stig og 10 fráköst en Grindvíkingar hafa stólað á umtalsvert meira framlag frá henni í stigaskorinu síðan hún gekk í raðir liðsins.

Næsti leikur liðanna er 3. júní á heimavelli Grindvíkinga.

Punktar:

• Kamilla Sól Viktorsdóttir sem borin var af leikvelli í síðasta leik gegn Ármanni var í búning í kvöld en hóf leikinn á tréverkinu. Kamilla kom inn og smellti þrist í fyrstu snertingu svo til allrar hamingju drógu meiðslin gegn Ármanni ekki frekari dilk á eftir sér.
• Janno Jay Otto leikmaður Grindavíkur var aðeins með tvö stig í hálfleik í kvöld en hún hefur verið með 22,7 stig að meðaltali í leik í vetur. Njarðvíkingar höfðu góðar gætur á henni fyrstu 20 mínúturnar og varnarleikur heimakvenna mikið afbragð.

Tölfræði leiks
Myndasafn


Fréttir
- Auglýsing -