spot_img
HomeFréttirÖflug byrjun ekki nóg gegn heimastúlkum í Södertalje

Öflug byrjun ekki nóg gegn heimastúlkum í Södertalje

Undir 18 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap gegn Svíþjóð í dag í sínum fjórða leik á Norðurlandamótinu í Södertalje. Liðið hefur því unnið tvo leiki og tapað tveimur, en lokaleikur þeirra á mótinu verður gegn Eistlandi og verður það hreinn úrslitaleikur um þriðja sæti mótsins.

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem að Ísland var síst verri aðilinn, en þær voru 2 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 14-16. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimakonur í Svíþjóð þó ágætis tökum á leiknum og eru 9 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 36-27.

Enn heldur Svíþjóð áfram að bæta stöðu sína í upphafi seinni hálfleiksins og er munurinn kominn í 17 stig fyrir lokaleikhlutann, 56-38. Að lokum gera þær svo það sem þarf til að sigla að lokum nokkuð öruggum 24 stiga sigur í höfn, 76-52.

Atkvæðamest fyrir Ísland í leiknum var Fjóla Gerður Gunnarsdóttir með 8 stig, 5 fráköst og Dzana Crnac bætti við 7 stigum, 3 fráköstum og 2 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -