Oddur Ólafsson mun leika með Þór Þorlákshöfn á næsta tímabili en þetta kemur fram á heimasíðu Þórsara. Oddur gaf það út á dögunum að hann myndi ekki taka slaginn með Val í 1. deild karla og hefur nú fest sig í Icelandic Glacial Höllinni.
Á heimasíðu Þórs segir:
Í leikmannahóp meistaraflokks hefur bæst við Oddur Ólafsson sem lék með Val síðasta vetur. Fram að því hefur Oddur hefur spilað með Hamar frá Hveragerði fyrir utan nokkur ár í Bandaríkjunum þar sem Oddur lék bæði í menntaskóla og háskóla. Oddur er engu að síður úr Ölfusi og því heimamaður en gekk í skóla í Hveragerði þar sem blómabærinn var nær heimili hans.
Heimasíðan spurði kappann um ákvörðun hans að spila með Þór næsta vetur. ,,Ég þekki ágætlega til í Þorlákshöfn þar sem ég spilaði með sameiginlegu liði Hamars og Þórs meira og minna upp alla yngri flokkana. Ég hef spilað með flestum af þessum strákum og veit því nokkurnveginn að hverju ég geng. Umgjörðin í kringum liðið hefur vakið athygli síðustu tímabil og verður spennandi að koma inn í liðið í minni heimasveit þar sem ég er uppalinn Ölfusingur. Liðið er ungt og sprækt og því spennandi tímar framundan í höfninni.”