spot_img
HomeFréttirOddur í Jordan-State: Captain Oddur!

Oddur í Jordan-State: Captain Oddur!

 
Þriðji og síðastur í röðinni af Jordan-State hópnum er Oddur Ólafsson en Norður-Karólína í Bandaríkjunum er jafnan þekkt sem Jordan-State hvar goðsögnin sjálf, Michael Jordan, gerði garðinn frægann með háskólaliði Norður-Karólínu. Þegar höfum við tekið púlsinn á Heiðrúnu Kristmundsdóttur og Rannveigu Ólafsdóttur sem báðar eru við nám og körfuboltaiðkun í Norður-Karólínu sem og Oddur en þau þrjú eiga það sammerkt að komast utan með dyggri aðstoð Sigurðar Hjörleifssonar.
..Þetta byrjaði allt með því að ég talaði við Pál Kolbeinsson, KR-ing, og sagði honum að ég hafði áhuga á því að komast til Bandaríkjanna í High School (miðskóla). Hann fór í málið fyrir mig ásamt nokkrum KR-ingum og allt endaði þetta í höndunum á Sigga Hjörleifs,” rétt eins og hjá Heiðrúnu og Rannveigu.
 
,,Í fyrstu var kominn skóli í Charlotte sem heitir Cannon School og leit allt út fyrir að ég væri að fara þangað. Þegar um mánuður var í brottför kom í ljós að ég gat ekki útskrifast út úr þeim skóla á einu ári, þannig að ég hefði þurft að koma inn sem Junior og vera þar í tvö ár. Fljótlega kom svo inn í myndina skóli frá Fayetteville sem heitir Fayetteville Christian School og erum við Warriors. Fayetteville Christian er 2A einkaskóli með um 600 nemendum. Ég kem inn í skólann á síðasta árið þannig að ég útskifast úr skólanum í maí,” sagði Oddur sem á síðustu leiktíð lét vel að sér kveða í Iceland Express deildinni með Hamri.
 
,,Ég var nokkuð snöggur að aðlagast umhverfinu hérna. Ég bý hjá kennara í skólanum og hennar fjölskyldu en þau eru mjög fín. Liðið lítur vel út, við erum búnir að spila 4 leiki og vinna 3 af þeim, tapleikurinn var á móti skóla frá Georgia, vorum yfir allan leikinn en vorum kærulausir í lokinn og endaði með 2 stiga tapi. Ég er búinn að vera í byrjunarliðinu í öllum 4 leikjunum það sem af er og hef verið að spila stöðu leikstjórnanda og skotbakvörðs. Ég er fyrirliðin í liðinu og einn af 5 strákum sem eru að útskrifast,” sagði Oddur og kvað boltann í miðskólanum nokkuð frábrugðinn því sem hann á að venjast, t.d. er engin skotklukka!
 
,,Boltinn hérna er svolítið öðruvisi en ég er vanur, mikill hraði og gríðarlega mikið lagt upp úr varnarleik. Til að mynda höfum við ekki fengið á okkur meira en 52 stig í fyrstu 4 leikjunum. Leiktíminn er 4×8 mínutur en enginn skotklukka, getur verið að maður spili vörn í 2-3 mínutur í einu sem er ekki alveg það sem maður er vanur. Markmið vetrarins eru skýr, það er að vinna okkar conference (riðil) og komast sem lengt í State Championship. Við ættum alveg að geta það, með mjög öflugt byrjunarlið og ágætis breidd, finnst líklegt að við verðum að spila á svona 8-9 mönnum i vetur. Við eigum erfitt leikjaplan en við spilum meðal annars á móti Word of God, skólanum sem að John Wall var í,” sagði Oddur sem þegar hefur vakið athygli ytra.
 
 
,,Varðandi framhaldið veit ég ekki, það hafa þrír meðal stórir skólar hérna í umhverfinu haft samband við þjálfaran minn og sagst hafa áhuga á að fá mig næsta vetur. Maður veit ekkert hvað gerist og ég ætla bara að sjá til hvernig mér líkar þessi vetur, leggja eins hart að mér og ég get, þá getur allt gerst,” sagði Oddur sem gerði 11 stig, gaf 8 stoðsendingar og stal 7 boltum í öruggum sigri Fayetteville gegn einmitt Cannon School þar sem Oddur átti fyrst að fara í skóla. Næsti leikur liðsins er 30. nóvember gegn Flora Mac Donald á heimavelli Fayetteville.
 
 
Ljósmyndir/ Á efri myndinni er Oddur í ,,action” með Hamri í Garðabæ en á þeirri neðri er kappinn kominn á vítalínuna með Fayetteville gegn Cannon skólanum.
 
Fréttir
- Auglýsing -