Í kvöld verða félagarnir Hlynur Elías Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson í eldlínunni þegar Sundsvall Dragons tekur á móti Norrköping Dolphins í sjöunda og síðasta leik liðanna um sænska meistaratitilinn.
Sjötti leikur liðanna á heimavelli Norrköping var vægt til orða tekið dramatískur þar sem Jakob Örn tryggði Sundsvall framlengingu með mögnuðum þrist. Í lýsingu á atvikinu er sagt að íslenska eldfjallið hafi látið á sér kræla þegar vallarstarfsmenn í Norrköping voru að draga fram ,,confetti“-vélarnar því 2,8 sekúndur voru eftir af leiknum og Norrköping leiddi með þriggja stiga mun. Þeim í Norrköping varð ekki kápan úr klæðinu í leik nr. 6 þar sem Jakob setti niður ólíklegan þrist og jafnaði með ,,kattmjúkum“ stíl sínum eins og segir í grein um leik 6.
Það má búast við miklum slag í oddaleiknum í dag.
Mynd/ Zahedi Fougstedt: Jakob Örn á ferðinni með Sundsvall gegn Norrköping.