spot_img
HomeFréttirOddaleikur á þriðjudag: Grindavík lá í Röstinni

Oddaleikur á þriðjudag: Grindavík lá í Röstinni

22:31 

{mosimage}

Darrell Flake reyndist Grindvíkingum erfiður ljár í þúfu í kvöld er hann sallaði á þá gulu 29 stigum þegar Skallagrímur jafnaði metin í 1-1 í einvíginu gegn Grindavík. Lokatölur leiksins voru 80-87 Skallagrím í vil þar sem stáltaugar Axels Kárasonar komu að góðum notum á lokasekúndunum. Jonathan Griffin gerði 26 stig í liði Grindavíkur en Þorleifur Ólafsson reyndi hvað hann gat til að halda sínum mönnum inni í leiknum á lokasprettinum en það dugði ekki til. Oddaleikur liðanna fer fram í Borgarnesi á þriðjudagskvöld og má búast við stórleik og troðfullu húsi.

 

Flake gerði 9 fyrstu stig Skallagríms í kvöld og skoraði nánast að vild. Páll Kristinsson fékk það vandasama verkefni að gæta Flake en fyrir rimmu þessara liða var það vitað að Grindvíkingar myndu eiga í basli með Flake. Sennilegt er að Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, leggji áherslu á að stoppa alla aðra en Flake en það fór einmitt úrskeiðis í kvöld. Grindavíkurvörnin gleymdi oft og tíðum að liggja í skyttum Skallagríms og fyrir vikið var þeim refsað.

 

Adam Darboe var duglegur í liði Grindvíkinga í kvöld og gerði 8 stig í fyrsta leikhluta. Staðan að leikhlutanum loknum var 23-26 Skallagrím í vil þar sem Axel Kárason gerði síðustu körfuna.

{mosimage}

 

Yfirburðir Flake í teignum héldu áfram í öðrum leikhluta og eftir því sem á leið reyndu Grindvíkingar oft að tvímenna á Flake og þá losnaði um skytturnar sem skiluðu mörgum mikilvægum skotum niður. Björn Brynjólfsson kom sterkur inná fyrir Grindavík og hafði góðar gætur á Dimitar en Skallagrímur greikkaði sporið og náðu að byggja upp 11 stiga forystu fyrir leikhlé. Staðan 35-46 í hálfleik en Adam Darboe gerði fjögur síðustu stig leikhlutans en hann og Jonathan Griffin voru báðir með 12 stig fyrir Grindavík í leikhléi.

Maður leiksins, Darrell Flake, var með 19 stig í hálfleik og ekkert sem benti til þess að Grindavík væri að ná tökum á honum.

 

Grindvíkingar léku svæðisvörn lungann úr síðari hálfleik og það virtist falla vel í gestina sem byggðu fljótlega upp góða forystu í þriðja leikhluta en honum lauk í stöðunni 52-66 Skallagrím í vil. Jonathan Griffin fékk sína fjórðu villu undir lok leikhlutans og var því fremur varkár í vörninni það sem eftir lifði leiks.

 

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu í fjórða leikhluta til að brúa bilið en það tók sinn tíma. Skallagrímur virtist ávallt eiga svör við sóknaraðgerðum Grindavíkur en þegar líða tók á fjórða leikhluta komust Grindvíkingar nær þegar Þorleifur Ólafsson minnkaði muninn í 70-79 en hann fór mikinn í þessum síðasta leikhluta.

 

Þegar um mínúta var til leiksloka var staðan 76-79 en Axel Kárason kom Skallagrím í 76-81. Strax í næstu sókn lyfti Þorleifur Ólafsson sér upp fyrir utan þriggja stiga línuna og setti niður erfitt skot og minnkaði muninn í 79-81 og spennan gríðarleg í Röstinni. Þegar 14 sekúndur voru til leiksloka fékk Axel Kárason boltann og brutu Grindvíkingar strax á honum. Axel fór á línuna og setti niður bæði vítin og jók muninn í fjögur stig. Þessi munur reyndist Grindvíkingum of mikill og áttu þeir ekki færi á því að jafna leikinn og góður sigur Skallagríms í höfn. Lokatölur 80-87 eins og fyrr greinir og því þarf oddaleik til að skera úr um hvort liðið fer í undanúrslit.

 

Gangur leiksins

2-7,14-15,23-26

30-34,31-43,35-46

46-54,48-61,52-66

58-70,74-79,80-70

 

Tölfræði leiksins

 

www.vf.is

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -