KKÍ kynnti í dag með fréttatilkynningu þær breytingar sem mótahald mun verða fyrir þegar að deildin fer aftur af stað. Bæði er þar gert ráð fyrir nýjum leikdögum yfir jólavertíðina, sem og er í nýju skipulagi gert ráð fyrir frestunum á leikjum.
Fréttatilkynninguna er hægt að lesa í heild hér fyrir neðan, en líkt og áður hafði verið gefið út er stefnan sett á að leikar hefjist aftur þann 13. nóvember.
Fréttatilkynning KKÍ:
Mikil vinna hefur farið í keppnisdagatalið undanfarna daga. Helstu áhyggjur mótanefndar og starfsmanna sambandsins snéru að því hvenær væri hægt að hefja keppni eftir það æfingastopp sem hefur ríkt á höfuðborgarsvæðinu, en þær tilslakanir sem kynntar voru í vikunni þar sem lið á höfuðborgarsvæðinu gátu hafið æfingar að nýju án snertingar, slógu nokkuð á áhyggjurnar.
Í fyrsta fasa er hér kynnt keppnisdagatal fyrir Domino’s og 1. deildir karla og kvenna. Það dagatal hefur áhrif á annað keppnishald, en í næstu viku verður farið í það af fullum krafti að skoða leiki í yngri flokkum og neðri deildum. Við bendum á að þetta dagatal eru drög og getur því tekið breytingum.
Nokkur atriði úr dagatalinu sem vert er að benda á:
- COV-L leikir í dagatalinu er svigrúm til að leika þá leiki sem fresta þarf vegna sóttkvíar eða einangrunar leikmannahópa. Annað svigrúm í dagatalinu verður einnig notað til leikja sem frestað hefur verið vegna sóttkvíar eða einangrunar leikmannahópa.
- Í Domino’s deild karla verður leikið 20., 23. og 27. desember og 3. janúar. Leiktímar gætu dreifst að einhverju leyti innan viðkomandi daga þar sem gert er ráð fyrir fleiri leikjum í beina útsendingu hjá Stöð 2 Sport.
- Eins og kemur fram að ofan, þá hafa 32 liða úrslit bikarkeppni KKÍ verið felld út. 16 liða úrslit verða leikin þar sem 8 liða úrslit voru áður fyrirhuguð. 8 liða úrslit bikarkeppni kvenna verða leikin 27. desember og 8 liða úrslit bikarkeppni karla verða leikin 30. desember.
- Landsleikjagluggar karla og kvenna lengjast vegna sóttkvíar leikmanna þegar heim er komið.
- Gætt er að því að ganga ekki á það svigrúm sem er til staðar í febrúar og mars eins og hægt er.
Við hvetjum ykkur til að skoða dagatalið vel innan ykkar raða. Ef færa þarf til leiki yngri flokka til að koma fyrir leikjum í þessum fjórum deildum, þá verður það gert af hendi mótanefndar.