spot_img
HomeFréttirNýr þjálfari og nýir tímar hjá Chicago Bulls

Nýr þjálfari og nýir tímar hjá Chicago Bulls

Undanfarin ár hjá Bulls undir stjórn Tom Thibodeau hafa verið frekar svipuð. Liðið verið feykisterkt á pappírunum fyrir mót en mikil meiðsl sett strik í reikninginn og á endanum hefur liðið náð flottum árangri miðað við meiðslalistann en ekki gert alvöru atlögu að titlinum.  Stórstjarna liðsins, Derrick Rose, hefur eins og allir körfuboltaáhugamenn vita verið einstaklega óheppinn með meiðsli og svo hafa lykilmenn undanfarinna ára skipst á að vera á meiðslalistanum. 

 

Sumir vilja meina að of mikið álag á lykilmönnum sé stór ástæða allra þessara meiðsla, en Thibodeau spilar mikið á sínu sterkasta liði og er til dæmis ekki þekktur fyrir að gefa nýliðum mikinn spilatíma.  Einnig hefur Thibs átt í útistöðum við stjórnendur liðsins og átti það líklega stærstan þáttí því að hann var látinn fara núna í lok tímabils.

 

Í stað Thibs réðu Bulls Fred Hoiberg, fyrrum NBA leikmann sem meðal annars spilaði fyrir Bulls í 4 tímabil en hafði þjálfað Iowa State háskólann með góðum árangri síðustu 5 árin. Thibodeau er þekktur fyrir að vera frábær varnarþjálfari en Hoiberg hefur vakið athygli fyrir sóknarleik og að spila meiri “atvinnumannabolta” heldur en lið gera almennt í háskólaboltanum. Það þýðir að spila hraðan, flæðandi leik og klára oft sóknirnar á fyrstu 10 sekúndum skotklukkunnar í stað þess að nýta allar 35 sekúndurnar sem skotklukkan í háskólaboltanum býður upp á.  En auk þess að spila svona “free flowing” sóknarleik hefur Hoiberg einnig sýnt að hann hefur einstaklega mörg taktísk vopn í erminni og hefur Iowa State til dæmis komið einna best út úr leikhléum.  

 

Það má því gera ráð fyrir miklum áherslubreytingum hjá Bulls og verður mjög athyglisvert að sjá sóknarleik liðsins. Til dæmis gæti verið að við fáum að sjá Derrick Rose minna með boltann í höndunum en hann er vanur, en Hoiberg hefur látið framherjana taka mikinn þátt í að stýra sóknarleiknum og “dribble handoff” verið mjög algeng.

 

Eins og staðan er núna virðist mannskapurinn verða nánast sá sami og í fyrra. Jimmy “Buckets” Butler skrifaði undir nýjan 5 ára samning eftir að hafa sprungið út í fyrra og þá hafa þeir einnig samið aftur við þá Mike Dunleavy og Aaron Brooks sem vorusamningslausir.  Eini leikmaðurinn sem hefur bæst við er Bobby Portis sem valinn var með valrétti nr 22 í nýliðavalinu, en hann er kraftframherji frá Arkansas skólanum. Spekingar eru almennt á því að þetta hafi verið gott val og var búist við að hann yrði valinn fyrr.  Hins vegar eru Bulls fjölmennir í framherjastöðunum svo það er ekki víst að hann fái margar mínútur í vetur nema einhver leikmannaskipti muni eiga sér stað.

 

Hópurinn:
Derrick Rose, súperstjarnan sem hefur verið meira og minna meiddur síðustu 3 ár, minnti heldur betur á sig í úrslitakeppninnií fyrra og virðist vera að nálgast sitt fyrra form.  Það er gefið mál að hann þarf að haldast heill og komast nálægt sínu fyrra formi ef liðið á að eiga möguleika í að skáka Cleveland í austrinu.

 

Jimmy Butler var spútnikleikmaður síðasta tímabils og fékk framfaraverðlaun NBA en hann stimplaði sig inn sem einn allrabesti skotbakvörður deildarinnar á báðum endum vallarins.  Virðist vera kominn til að vera sem stjarna og á framtíðina fyrir sér, en hann væri ekki sá fyrsti til að dala eftir að hafa átt frábært ár og fengið stóran samning.

 

Mike Dunleavy er þjálfarasonur sem er frábær skytta og vanmetinn varnarmaður.  Hefur dáldið fengið stimpilinn að vera hvít skytta sem er ekki afburða íþróttamaður og þar af leiðandi á ekki að geta spilað vörn.  En hann bætir hins vegar upp fyrir það með miklum leikskilning og að spila mjög fast.

 

Pau Gasol var af mörgum talinn nánast útbrunninn fyrir síðasta tímabil en gekk í endurnýjun lífdaga hjá Bulls í fyrra.  Einhver allra flinkasti stóri maðurinn í deildinni, getur postað upp, skotið fyrir utan og með frábærar sendingar auk þess að vera góður frákastari.

 

Joakim Noah er með eitthvað það ljótasta skot sem sést hefur í deildinni undanfarið fyrir utan kannski bringusundsskotið hans Shawn Marion, en hann hefur verið sálin í þessu liði undanfarin ár.  Einstakur baráttuhundur sem gefst aldrei upp og hræðist engann.  Auk þess að vera frábær varnarmaður hefur hann gott auga fyrir sendingum.  Hann hefur hins vegar verið mikið meiddur síðustu 2 ár eftir að hafa verið í MVP umræðunni þar áður.

 

Taj Gibson er annar frábær varnarmaður sem hefur verið að taka stöðugum framförum síðan hann kom í deildina og var farinn að fá stærra hlutverk í sókninni hjá Thibs.

 

Nikola Mirotic, einn af mínum uppáhaldsleikmönnum, hávaxinnleikmaður sem getur spilað bæði á kantinum eða í fjarkanum.  Góð skytta sem getur sett boltann í gólfið og hefur gott auga fyrir sendingum.  Fyrirfram var búist við að hann yrði slakur varnarmaður en hann stóð sig framar vonum varnarlega í fyrra þrátt fyrir að enginn telji hann vera Tony Allen.

 

Aaron Brooks, skotglaður lítill snöggur leikstjórnandi sem getur skorað stig í bunkum.  Getur breytt leikjum, í hvora áttina sem er.

 

Tony Snell, langur bakvörður með gott skot sem er vonast eftir að verða næsti Jimmy Butler. Hefur sýnt að það er ýmislegt í hann spunnið en aldrei náð að festa sig í róteringunni.  Spurning hvort það gerist í ár.

 

Kirk Hinrich, Captain Kirk hefur dalað umtalsvert síðustu ár en þykir mikilvægur í búningsklefanum.  Á ekki von á að hann spili mikið í vetur.

 

Doug McDermott, náði ekki að sýna mikið á nýliðaárinu en gætisprungið út í ár – var svakaleg byssa í háskólaboltanum

 

Bobby Portis er nýliði en þessi 208 sm kraftframherji er sagður vera sterkur á póstinum og mjög vinnusamur.

 

E’Twaun Moore og Cameron Bairstow eru einnig enn á leikmannalistanum en Bulls hafa svokallað team option á samningum þeirra og geta því látið þá fara ef þeim býðst eitthvað meira spennandi á markaðnum.

 

Sem harður Bullsari er ég mjög spenntur fyrir tímabilinu og tel liðið hafa alla burði til að berjast á toppnum í austrinu. Það fer samt að miklu leyti eftir heilsu Rose og hvernig Hoiberg nær aðaðlagast því að þjálfa í NBA deildinni.
 

Baldur Már Stefánsson

Fréttir
- Auglýsing -