Þór Akureyri hefur ráðið nýjan bandarískan leikmann að nafni Terrance Motley. Hann verður ekki með í bikarleik Þórs í kvöld gegn Snæfell í Stykkishólmi en er kominn til landsins og verða öll leyfi tilbúin fyrir næsta leik í Dominosdeild karla.
Sumir gætu kannast við Terrance Motley en hann lék með FSu tímabilið 2016-2017 í 1. deild karla. Þar náði skoraði hann 31.3 stig, tók 13.0 fráköst og var með 31.9 í framlag að meðaltali í leik (24 leikir spilaðir).
Hann spilaði í háskólaboltanum í Bandaríkjunum fyrir Sam Houston State (7.64 stig og 4.61 fráköst að meðaltali í leik í 66 leikjum) og fékk meðal annars stuttan samning með Oklahoma City Blue, öðru deildar liði Oklahoma City Thunder. Hann spilaði reyndar enga leiki með þeim en hefur það þó á ferilskránni.
Það kemur í ljós hvort þetta sé leikmaður sem getur breytt gengi Þórsmanna, en þeir hafa hingað til ekki unnið leik í fyrstu fimm umferðum Dominosdeildar karla.