Með húðflúr frá herðum og niður úr og skapið virðist vera að hlaupa með kappann í gönur hvað eftir annað þá er ekki annað að sjá en að DeMarcus Cousins sé á hraðbrautinni að verða hinn nýji “Bad boy” í NBA deildinni. Við höfum haft Dennis Rodman, Rasheed Wallace (sem reyndar er enn að) og fleiri sem hafa séð um það að belgja út “bjórsjóðinn” hjá David Stern síðastliðin ár.
Stern hefur eflaust brynnt músum þegar Rodman sagði skilið við deildina á sínum tíma og þegar Rasheed Wallace lagði skóna á hilluna (eða bara ekki) En nú virðist DeMarcus Cousins hjá Sacramento vera að fylla það skarð sem þessir menn mörkuðu á sínum ferli. Cousins hefur nú þegar verið settur í bann þrisvar á þessu tímabili og á nú í útistöðum við þjálfara sinn hjá Sacramento, Keith Smart sem hefur ekki tekið kappann með í síðustu leiki.
Til orðaskipta kom á milli þeirra Smart og Cousins í leik Kings og Clippers nú á dögunum í hálfleik þeirra leiks sem varð til þess að Cousins var skipað að halda sig inní klefanum það sem eftir lifði leiks. Spurningin er því hvort næstu daga verði þessum stóra og stæðilega unga manni jafnvel skipt frá Sacramento?