KR lagði Þór í þriðju umferð Bónus deildar karla í Þorlákshöfn í kvöld, 92-97.
Fyrir leik
Heimamenn í Þór höfðu farið vel af stað í deildinni þetta tímabilið og lagt bæði Val og Njarðvík. Nýliðar KR sömuleiðis farið vel af stað, lögðu Tindastól í fyrstu umferð áður en þeir töpuðu með minnsta mun mögulegum heima fyrir Stjörnunni í leik tvö.
Liðin tvö, Þór og KR nánast fullskipuð fyrir leik kvöldsins, fyrir utan það vantaði Ólaf Björn Gunnlaugsson í lið Þórs og Veigar Áka Hlynsson í lið KR, en þeir voru frá vegna meiðsla.
Gangur leiks
Það voru gestirnir úr Vesturbænum sem hófu leik kvöldsins betur. Virtust miklu ákafari en heimamenn bæði varnar- og sóknarlega. Leiða mest með 7 stigum í fyrsta fjórðung, missa það aðeins á lokamínútunni og er munurinn því aðeins fjögur stig fyrir annan leikhluta, 20-24. KR er svo áfram með góð tök á leiknum undir lok fyrri hálfleiksins. Eru bæði nokkuð góðir að setja stig á töfluna í hraðaupphlaupum, og þá eru þeir einnig furðu agaðir þegar þeir þurfa að spila á hálfum velli. Hefðu líklega verið meira yfir en raun ber vitni ef þeir hefðu passað boltann betur í fyrri hálfleiknum. Fengu oftar en ekki hraðaupphlaup og körfu í andlitið þegar þeir fóru óvarlega með boltann. Munurinn 7 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-51.
Atkvæðamestur heimamanna í fyrri hálfleiknum var fyrrum leikmaður KR Jordan Semple með 15 stig. Fyrir gestina í KR var Nimrod Hilliard einnig kominn með 15 stig.
Hálfleiksræða Lárusar þjálfara Þórs virðist hafa virkað í upphafi þriðja fjórðungs, þar sem Þórsarar mæta mun betur til leiks í seinni hálfleikinn heldur en þeir gerðu í upphafi leiks. Ná ekki að vinna niður forskot gestanna ýkja mikið, en sýndu smá lífsmark, sem fékk áhorfendur til að trúa því að þeir hefðu áhuga á að vinna leikinn. Munurinn átta stig fyrir lokaleikhlutann, 63-71.
KR heldur forystunni inn í fjórða leikhlutann og með þristi frá Linards Jaunzems þegar rúmar þrjár mínútur eru til leiksloka er munurinn sex stig, 80-86. Undir lokin kemst Þór ansi nálægt því að gera þetta óþægilegt fyrir KR, en með þristi frá Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni þegar um 40 sekúndur eru eftir, 86-93, gefst KR andrými til að klára leikinn, 92-97.
Kjarninn
Það tók Þórsliðið alltof langan tíma að mæta ákefð gestanna úr Vesturbæ í kvöld. Segja má þeir hafi verið sofandi allan fyrri hálfleikinn. Að sama skapi svöruðu nýliðarnir því ágætlega í hvert einasta skipti sem áhlaup átti sér stað hjá heimamönnum. Enginn heimsendir samt fyrir heimamenn að hafa tapað fyrir þessu KR liði sem (líkt og þeir sjálfir) virðist mun betra heldur en spár gerðu ráð fyrir nú í vor.
Atkvæðamestir
Jordan Semple var lang bestur á báðum endum vallarins fyrir Þór í kvöld, en hann skilaði 27 stigum og 7 fráköstum. Honum næstur var Justas Tamulis með 15 stig og 4 fráköst.
Fyrir KR var Nimrod Hilliard atkvæðamestur með 28 stig, 7 fráköst og Vlatko Granic bætti við 17 stigum og 8 fráköstum.
Hvað svo?
Bæði lið eiga leik næst í Bónus deildinni komandi fimmtudag 24. október, en þá heimsækir Þór lið ÍR í Skógarsel og KR fær Álftanes í heimsókn á Meistaravelli.