Nýliðar Njarðvíkur tóku á móti Val í fyrstu umferð Domino´s-deildar kvenna í kvöld. Með fallspá á bakinu tóku Njarðvíkingar sig til og leiddar áfram af Carmen Tyson-Thomas höfðu heimakonur sigur í sínum fyrsta deildarleik. Lokatölur 77-74 í hörku slag í Ljónagryfjunni.
Carmen Tyson-Thomas skoraði 53 stig í leiknum, tók 18 fráköst, stal 4 boltum og gaf eina stoðsendingu en hún fékk þrjár villur eftir tæplega 12 mínútna leik! Ína María Einarsdóttir var næst Carmen með 14 stig og 4 fráköst. Hjá Val var Mia Loyd með 30 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir bætti við 13 stigum og 5 fráköstum.
Agnar Mar Gunnarsson þjálfari Njarðvíkinga var að vonum sáttur með sigurinn:
„Við töluðum um það fyrir leik að ekki margir hefðu trú á okkur og því væri það liðsins að sanna sig og sýna fólkinu að við gætum alveg spilað körfubolta. Það sýndum við í kvöld en hópurinn lagði sig allur fram og ég var mjög ánægður með baráttuna í liðinu,“ sagði Agnar en er það áhyggjuefni að Carmen Tyson-Thomas sé svo afgerandi í stigaskorun liðsins?
„Nei nei, við vitum hvað hún getur en stelpurnar verða að vera klárar þegar það kemur tví- og jafnvel þrídekkun á Carmen. Hún er góður sendingamaður og í kvöld gekk það vel að finna skotmennina á kantinum. Annars var Björk Gunnarsdóttir einn af mönnum leiksins en hún var með 12 stoðsendingar og stýrði liðinu eins og herforingi.“
Tölfræði lýgur ekki
Valskonur voru með 14 tapaða bolta í leiknum en Njarðvíkingar aðeins sex sem rennir þá jafnvel frekari stoðum undir hrós Agnars í garð leikstjórnandans Bjarkar. Þá höfðu Njarðvíkingar líka betur í frákastabaráttunni.
Næsti leikur Njarðvíkurkvenna er á útivelli gegn Íslandsmeisturum Snæfells þann 9. október en Valur heimsækir Hauka í Hafnarfjörð þennan sama dag.