spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaNýliðar Stjörnunnar upp í annað sæti Subway deildarinnar eftir sigur gegn Grindavík

Nýliðar Stjörnunnar upp í annað sæti Subway deildarinnar eftir sigur gegn Grindavík

Nýliðar Stjörnunnar lögðu Grindavík í 9. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í öðru sæti deildarinnar með sex sigra og þrjú töp það sem af er tímabili.

Leikurinn var í járnum í upphafi, þar sem að aðeins tveimur stigum munaði á liðunum eftir fyrsta leikhluta, 25-23. Undir lok fyrri hálfleiksins ná gestirnir úr Grindavík þó að vera skrefinu á undan og eru þær fjórum stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 40-44.

Heimakonur mæta svo betur til leiks í seinni hálfleik og ná góðu áhlaupi undir lok þess þriðja. Halda gestunum í aðeins tíu stigum í fjórðungnum og eru átta stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 62-54. Í honum ná þær svo að hanga á forystunni og sigra leikinn að lokum með níu stigum, 89-80.

Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Katarzyna Trzeciak með 26 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar. Fyrir Grindavík var það Eve Braslis sem dró vagninn með 35 stigum, 10 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Bæði lið eiga leik næst komandi þriðjudag 28. nóvember, en þá mætir Grindavík liði Fjölnis í Dalhúsum á meðan að Stjarnan fær Þór Akureyri í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -