spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaNýbakaður Evrópumeistari Tryggvi Snær Hlinason er ánægður í Bilbao ,,Ég tel mig...

Nýbakaður Evrópumeistari Tryggvi Snær Hlinason er ánægður í Bilbao ,,Ég tel mig bæta mig eftir hvert tímabil”

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Bilbao unnu FIBA Europe Cup í gærkvöldi, en úrslitaleikirnir voru heima og heiman gegn gríska liðinu PAOK þar sem Bilbao vann með samanlögðum fimm stiga mun.

Karfan heyrði í Tryggva nú í morgun og spurði hann út í titilinn, tímabilið og hvað hann hyggðist gera í sumar. Sagðist Tryggvi vera stoltur af liði sínu að hafa klárað þennan Evróputitil og að ár þeirra hafi verið geggjað í FIBA Europe Cup, þá sagði hann ,,Við komumst svona langt fyrst og fremst vegna þess að við tókum hverjum leik eins og úrslitaleik og í lokin náðum við að berjast fyrir hverri einustu sókn og hverju einustu vörn sem skilaði okkur þessum bikar!”

Varðandi hvernig titlinum yrði tekið í Bilbao sagði Tryggvi að honum væri fyrst og fremst fagnað ,,Við ferðuðumst heim eftir leikinn og það var veisla alla leið. Síðan förum við út að borða í kvöld og kannski út á lífið í kjölfarið. Á föstudaginn verður svo formleg fögnun niður í bæ með öllum bænum”

Tryggvi Snær hefur átt afar gott tímabil með Bilbao á þessu tímabili, en í Evrópukeppninni var hann að skila rúmum 7 stigum, 4 fráköstum, stoðsendingu og vörðu skoti að meðaltali í leik. Varðandi uppgang hans með Spánarliðinu á tímabilinu sagði Tryggvi ,,Ég tel mig bæta mig eftir hvert tímabil. Þetta fer allt í reynslubankann og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Einnig hefur liðið mikla trú á manni sem er frábært en það hvetur mig enn frekar að sýna hvað í mér býr. Ég er bara þakklátur að geta hjálpað liðinu eins og ég hef verið að gera”

Líkt og alltaf er í heimi atvinnu-körfuboltamanns er þó ekki víst að leikmenn ílengist á sama staðnum of lengi. Tryggvi hefur nú leikið fyrir fjögur félög í sterkustu þjóðadeild Evrópu, ACB deildinni á Spáni, en spurður út í hvað framtíðin beri í skauti sér sagði Tryggvi ,,Ég er mjög ánægður hérna en á sama tíma er of snemmt að segja til um næsta ár. Það sem er fyrst og fremst í mínum huga er að klára þetta tímabil vel og í kjölfarið sjá hvað tekur við.”

Fréttir
- Auglýsing -