spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNý hæð að bætast við Hlíðarenda

Ný hæð að bætast við Hlíðarenda

Valsmenn og Álftnesingar eru sætisfélagar í Bónusdeildinni eins og sakir standa og ÍR-ingar halda þeim félagsskap. Það er meira og minna allt í einni blessaðri flækju í töflunni, aðeins 4 stig eru bæði niður á botn og upp í fjórða sætið fyrir þessi þrjú lið! 

Valsmenn fóru ránshendi um nes Álfta í fyrri viðureign liðanna í deildarkeppninni, höfðu þriggja stiga sigur eftir framlengingu. Gestirnir þurfa því 4+ stiga sigur til að standa betur innbyrðis, hver veit nema það muni skipta máli þegar upp er staðið. Bæði lið töpuðu í síðustu umferð, Álftnesingar heima gegn Njarðvík á meðan Íslandsmeistararnir skíttöpuðu í Þorlákshöfn. Hvort liðið kemur sér aftur á sigurbraut í kvöld, Kúla góð?

Kúlan: ,,Sérðu fyrir þér Íslandsmeistara Vals eiga annan eins hauskúpuleik og gegn Þór í kvöld?? NEI. Valsmenn mæta trylltir og klára þennan nokkuð örugglega, 92-81.“

Byrjunarlið

Valur: Ramstedt, Badmus, Kiddi Páls, Sherif, Kári Jóns

Álftanes: Okeke, Haukur, Klonaras, James, Hössi

Gangur leiksins

Það bar ekki mikið á milli liðanna í fyrsta fjórðungi. Gestirnir stungu stórutá fram eftir þrista frá Hössa og Dúa, staðan 12-16 eftir 6 mínútna leik. Þá brast á með þeim gleðitíðindum að Kristófer Acox kom inn á í fyrsta sinn á þessum tímabili. Kristó lét strax að sér kveða og óþarfi að hafa mörg orð um hvernig það breytir leik Íslandsmeistaranna til hins betra. Kiddi kom þeim svo yfir 21-19 eftir stórglæsilega sókn Vals og heimamenn leiddu 25-23 eftir einn.

Tilfinning undirritaðs var sú að heimamenn væru á leið í skemmtisiglingu til að fagna endurkomu Kristó. Það var þó ekki fyrr en um miðjan leikhlutann sem Valsarar náðu að byggja upp 7 stiga forystu í stöðunni 38-31 og Kjartan greip til leikhlés. Innan við leikmínútu síðar var staðan 44-35 og Kjartan tók strax aftur leikhlé! Sennilega var Kjartan að rifja upp ,,slip“-bragðið góða sem Kristó beitir svo vel og hann og fleiri voru að fá alltof auðveldar körfur. Heimamenn settu bara 2 stig fram að hálfleik og gestirnir náðu að jafna leikinn með þristum frá Hössa og Okeke, af öllum mönnum, fyrir pásuna! 46-46 í leikhléi.

Gestirnir settu fyrstu 5 stig seinni hálfleiks og ekkert varð úr skemmtisiglingu heimamanna. Munurinn varð þó aldrei meira en 1-2 körfur en Finnur sá þó ástæðu til að taka leikhlé þegar tæpar 4 mínútur lifðu af þriðja eftir þrist frá Dúa, staðan 55-59. Álftnesingar voru enn yfir 63-64 fyrir lokaleikhlutann, allt í járnum og spennandi lokaleikhluti framundan.

Ramstedt getur alveg skotið fyrir utan og kom heimamönnum aftur í bílstjórasætið með 5 stigum í röð. Gestirnir gáfu hins vegar ekkert eftir, í stöðunni 79-76 fengu þeir ítrekuð tækifæri til að taka aftur í stýrið og það tókst að lokum. Haukur skoraði af harðfylgi undir körfunni og NBA-James kom sínum mönnum yfir með þristi, 79-81, þegar aðeins 2 mínútur voru eftir! Þarna höfðu heimamenn ekki skorað í svolítinn tíma, líkast til bæði vegna góðs varnarleiks gestanna og ekki nægilega beinskeytts sóknarleiks Íslandsmeistaranna. Ekkert var skorað í leiknum í rúma mínútu en Kiddi Páls braut ísinn og jafnaði leika þegar 53 sekúndur voru eftir. James átti ansi furðulega og ekki mjög NBA-lega tilraun í næstu sókn, Kiddi setti svo annað stökkskot frá sama punkti og einhverjum sekúndum fyrr og heimamenn komnir yfir! Haukur fékk ágætan möguleika til að jafna í lokasókn gestanna en skotið geigaði. Ramstedt kláraði svo leikinn á vítalínunni – lokatölur 87-81 í hörkugóðum sigri Valsmanna. 

Menn leiksins

Badmus var eins og oft áður stigahæstur Valsmanna með 20 stig og hirti 5 fráköst. Endurkoma Kristó voru hins vegar helstu fréttir kvöldsins, hann setti 16 stig og tók 10 fráköst á 18 og hálfri mínútu.

Okeke var klárlega besti maður gestanna, setti 20 stig og tók 6 fráköst. Justin James setti 21 stig og tók 7 fráköst en hefur ekki verið heppinn með sig í lok leikja hingað til.

Kjarninn

Oft er talað um að lið hafi ,,hátt þak“ en allir vita að þá er átt við að liðið gæti mögulega átt mikið inni. Að Hlíðarenda er hreinlega verið að byggja heila hæð! Kristó gerbreytir Valsliðinu á allan mögulegan hátt til hins betra, varnarlega, sóknarlega, andlega og nefndu það. Þrátt fyrir afleitan leik í Þorlákshöfn um daginn spáir undirritaður því að Íslandsmeistararnir taki nú á góðan sprett og vinni flesta þá leiki sem eftir eru fram að úrslitakeppni.

Kjartan hélt sennilega langa og góða ræðu yfir sínum mönnum eftir leik og undirritaður ákvað að gefa honum frí frá viðtali. Álftnesingum hafa verið frekar mislagðar hendur í lok leikja í vetur eða eins og einhver orðaði það um daginn þá virðast þeir hata að vinna körfuboltaleiki! NBA-James hefur ekki breytt því til hins betra enn sem komið er. Ráðlegging dagsins til Kjartans og Álftnesinga er að missa ekki móðinn, halda í bjartsýnina og fara ekki á taugum – þetta er ennþá alger hrærigrautur í töflunni og nokkrir sigurleikir í röð gerbreyta öllu.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -