spot_img
HomeFréttirNostradamus - Friðrik Ingi Rúnarsson

Nostradamus – Friðrik Ingi Rúnarsson

 Friðrik Ingi Rúnarsson hnoðaði í spá fyrir bikarhelgina og hér er hún. 
 Ég von á skemmtilegum og spennandi leik hjá Snæfelli og Haukum sem hafa bæði verið að leika vel í vetur. Snæfell hefur spilað jafnbest og má kannski segja að pressan sé ögn meiri á því en bæði þjálfari og nokkrir leikmenn liðsins hafa reynslu og þekkingu til að klára svona leik. Haukar hafa innanborðs besta erlenda leikmann deildarinnar og mun mikið mæða á Lele Hardy. Hún þekkir svona leiki en hún varð tvöfaldur meistari með Njarðvík fyrir tveimur árum. Mér finnst Bjarni Magg hafa náð að byggja upp skemmtilegt lið sem er til alls líklegt. Það er eitthvað sem segir mér að þessi leikur fari í framlengingu og eftir mikið drama standi Snæfell uppi sem sigurvegari en ég dett ekki af stólnum af undrun ef það snýst við og Haukar landi titlinum.
 
 
Grindavík er fyrirfram talið sigurstranglegra í karlaleiknum en spurningin er hvernig það fer í leikmannahópinn, það hjálpar ekki alltaf þegar kemur í svona stakan úrslitaleik. Leikmannahópur ÍR er nokkuð reynslulaus en á sama tíma og það getur reynst þeim erfitt að finna rétta spennustigið getur það hjálpað um leið, þeir hafa allt að vinna. Við höfum séð á undanförnum árum úrslit sem sanna að ekkert vinnst á pappírum eða í orðum manna á milli áður en á hólminn er komið. Ég hallast að því að Sverrir og hans lærisveinar hafi betur en vil þó ekki útiloka Örvar og hans menn. Á mér þann draum að við fáum að sjá skemmtilegan og spennandi leik.
 
Mig langar svo að óska þess að allir sem koma að þessum leikjum njóti stundarinnar í Laugardalshöllinni sem best, en það er draumur hvers leikmanns, þjálfara, stjórnarmanna, stuðningsmanna að ógleymdum dómurum að vera þátttakendur í þessari miklu hátíð sem bikarúrslit eru.
 
Áfram körfubolti.
 
Fréttir
- Auglýsing -