Pavel Ermolinski og félagar í Norrköping Dolphins fengu skell á heimavelli í kvöld þegar BK Ventspils kom í heimsókn í Eurochallenge keppninni. Lokatölur voru 51-69 BK Ventspils í vil. Pavel var ekki eini Íslendingurinn á leiknum þar sem Pétur Hrafn Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri KKÍ og núverandi formaður dómaranefndar KKÍ, var eftirlitsmaður á leiknum.
Pavel var ekki í byrjunarliðinu í kvöld en lék í 20 mínútur en náði ekki að skora. Hann brenndi af tveimur teigskotum og þremur þriggja stiga skotum en tók tvö fráköst og var með fjórar stoðsendingar.
Þrátt fyrir tapið í kvöld er Norrköping í 2. sæti C-riðils í Eurochallenge með 6 stig, hafa unnið tvo leiki og tapað tveimur.