spot_img
HomeFréttirNorðurlandamótinu lokað með kvöldvöku - Undir 18 ára lið stúlkna vann hæfileikakepnnina

Norðurlandamótinu lokað með kvöldvöku – Undir 18 ára lið stúlkna vann hæfileikakepnnina

Eins og hefð er á Norðurlandamótum var haldin kvöldvaka síðasta dag mótsins. Á henni fer m.a. fram hæfileikakeppni þar sem hvert lið fyrir sig sýnir skemmtiatriði. Dómnefndin, sem samanstendur af sjúkraþjálfurum liðsins, ásamt viðstöddum starfsmönnum Körfunnar, ákveður sigurvegarann. Í lok kvöldvökunnar er sú hefð að elsti árgangurinn (að þessu sinni leikmenn fæddir 2004) flytur Draum um Nínu og kveður þar með Norðurlandamótið í hinsta sinn.

U16 lið drengja hóf keppnina sterkt og fluttu frumsaminn texta að þekktu lagi. Lagið var Bahama eftir Ingó Veðurguð en textinn fjallaði um nýju Minions myndina. Magnús tók að sér einsönginn og stóð sig príðilega og kórinn söng “Banana, eyyyja, banana, eyyyja” undursamlega í viðlaginu.

Þar næst hélt U16 lið stúlkna á sviðið og fluttu þær fallega útgáfu af “Breaking free” úr High School Musical. Díana leiddi sönginn ásamt Matildu og fljótt fengu þær stúkuna með í klapp.

Næstir voru drengirnir í U18 og þrátt fyrir slaka og hljóðláta byrjun leið ekki á löngu fyrr en allt liðið kom Ágústi, Kristjáni og Óskari til aðstoðar í viðlaginu að “I Touch Myself”. Glimrandi luftgítarsóló frá Óskari fékk stór rokkstig frá dómnefnd.

U18 lið kvenna steig síðast á stokk og undir leiðsögn Emmu Hrannar og Evu fór fram flottasti flutningur á “Gordjöss” síðan Páll Óskar tók það með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir 10 árum. Atriðið hafði allt með sér. Orku, söng og síðast en ekki síst, óaðfinnanlega danstúlkun frá Emmu Hrönn.

Eftir langa og erfiða umræðu, sem endaði næstum með því að stía þyrfti dómnefndinni í sundur, voru úrslit keppninnar ákveðin og eru svo hljóðandi:

Í fjórða sæti var kraftlaus flutningur U18 drengja á “I Touch Myself” en vonin er að 2005 árgangurinn hefni fyrir slaka frammistöðu á NM2023.

Í þriðja sæti var skemmtilegur en fremur ófrumlegur flutningur U16 stúlkna á “Breaking Free” en þær hafa tvö til þrjú Norðurlandamót í viðbót til þess að bæta sig og því engar áhyggjur að hafa.

Í öðru sæti var frumlegur flutningur á nýjum texta við “Bahama” hjá U16 drengjaliðinu. Þrátt fyrir að setjast niður og eyða öllum sínum takmarkaða frítíma á mótinu í að skrifa undurfagran Minions-þemaðan texta dugði það ekki gegn sigurvegurum…

U18 liðs stúlkna. Með endalausa orku, dansspor og allan pakkann pökkuðu þær samkeppninni saman og sendu heim til Íslands með næsta flugi. Hentugt þá að næsta flug er einmitt flugið sem íslenski hópurinn fer með seinna í dag.

Þrælskemmtileg kvöldvaka í alla staði og hæfileikagagnrýnandi Körfunnar gengur sáttur frá borði.

Fréttir
- Auglýsing -