spot_img
HomeFréttirNorðlenska nautið dreif Stólana áfram

Norðlenska nautið dreif Stólana áfram

Fyrsti útisigur Tindastólsmanna er í höfn! Þá er einnig fyrsti deildarósigur Stjörnunnar staðreynd en Stólarnir börðust kröftuglega í Ásgarði í kvöld og uppskáru 93-95 sigur á Stjörnunni. Amani Daanish var stigahæstur í liði Tindastóls með 26 stig og 12 fráköst en hetjan var vafalítið norðlenska nautið Helgi Viggósson sem var ódrepandi í kvöld.
Helgi pískaði sínum mönum áfram og með óviðjafnanlegri baráttu blés hann vindi í segl Tindastóls og þá voru tölurnar hjá kappanum ekki af verri endanum, 20 stig og 12 fráköst.
  
Helgi var líflegur frá fyrstu mínútu en þegar Stjarnan komst í 15-11 gerðu gestirnir 8 stig í röð. Justin Shouse rauf áhlaup gestanna með gegnumbroti og Stjarnan náði að komast yfir á ný með þriggja stiga skoti frá Jovan Zdravevski og staðan 20-19 eftir fyrsta leikhluta.
 
Jovan opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og Stjarnan leiddi 23-19. Gestirnir fengu vítamínssprautu þegar Sveinbjörn Skúlason kom með góða rispu fyrir Tindastól. Svellkaldur bauð Sveinbjörn upp á þrist í fyrstu snertingu og þegar tæpar tvær mínútur voru til hálfleiks splæsti Sveinbjörn á annan þrist og staðan 31-36 fyrir Tindastól. Stjarnan klóraði í bakkann fyrir hálfleik og gestirnir leiddu 35-38.
 
Jovan Zdravevski var með 12 stig fyrir Stjörnuna í leikhléi en þeir Svavar Atli Birgisson og Helgi Viggósson voru með 11 stig báðir í liði Tindastóls. Skemmst er frá því að segja að skotnýting liðanna í fyrri hálfleik var miður góð og leituðu Tindastólsmenn mikið að Amani Daanish sem átti í mesta basli með að finna körfuna. Nýtingin var engu betri hjá heimamönnum og eflaust margir því fegnir að tilþrifalítill og latur fyrri hálfleikur væri að baki.
 
Amani Daanish kom gestunum snemma í 10 stiga forystu 38-48 með stökkskoti í teignum og Michael Giovacchini breytti stöðunni í 44-53 með þriggja stiga körfu og svona gekk þetta allan þriðja leikhluta. Sama hvað Stjörnumenn reyndu að nálgast gesti sína þá göldruðu Stólarnir fram stórar körfur. Justin Shouse vildi ekki láta bjóða sér þetta og tók málin í sínar hendur. Brotið var á Justin þegar 50 sekúndur lifðu þriðja leikhltua og hann setti bæði vítin niður og minnkaði muninn í 60-63. Áhlaup Stjörnunnar kom ekki að sök því Tindastólsmenn gerðu fimm síðustu stig leikhlutans og þar var Amani Daanish sterkur er hann fékk körfu góða og villu að auki og staðan því 60-68 fyrir fjórða leikhluta.
 
Töluverð harka var farin að færast í leikinn í fjórða leikhluta og eftir því sem leið á leikhlutann skánaði vörn Stjörnunnar en það reyndist þeim afar dýrkeypt að þurfa um hálftíma leik til þess að átta sig á því að vörnin gegnir stóru hlutverki í leiknum.
 
Magnús Helgason hélt bikarmeisturunum við efnið með körfu í teignum og þarf hann að hafa sig meira í frammi í sókninni enda með prýðilegt skot. Magnús minnkaði muninn í 66-73. Kjartan Atli Kjartansson minnkaði svo muninn í 70-75 með gegnumbroti en þá tóku gestirnir á rás.
 
Giovacchini setti niður stóran þrist fyrir Tindastól þegar tvær og hálf mínúta voru eftir og staðan 77-86. Helgi Viggósson, maður leiksins, kom Stólunum svo 10 stigum yfir þegar hann skoraði og fékk villu að auki og fagnaði hann að hætti hússins með stuðningsmönnum Stólanna sem höfðu einnig betur á pöllunum í Ásgarði.
 
Þegar svo tvær mínútur voru til leiksloka fékk Fannar Freyr Helgason, miðherji Stjörnunnar, sína fimmtu villu í leiknum og varð frá að víkja en auðséð var að Fannar var ekki í toppstandi en mun líkast til koma sterkur inn fyrir Garðbæinga í næstu leikjum.
 
Loks þegar tvær mínútur voru eftir sýndu Stjörnumenn að þeir höfðu áhuga á því að vinna leikinn. Heimamenn fóru þá að pressa og unnu stöku bolta. Justin Shouse braust í gegnum vörn Tindastóls þegar 29 sekúndur voru eftir og skoraði úr sniðskoti og staðan 90-92. Skömmu síðar braut Kjartan Atli á Svavari í liði Tindastóls sem komnir voru í skotrétt.
 
Svavar hitti aðeins úr öðru vítinu og Stjarnan brunaði upp völlinn og sniðskot frá Justin geigaði. Brotið var á Helga Viggóssyni sem náði frákastinu og hann hitti aðeins úr síðara vítinu og staðan 90-94 Tindastól í vil. Justin Shouse sem reyndi allt hvað hann gat til að halda Stjörnunni á lífi brunaði upp völlinn enn eina ferðina og setti niður flugþrist og minnkaði muninn í eitt stig, 93-94.
 
Jovan var snöggur að brjóta á Aamani Daanish en þá voru 2,6 sekúndur eftir af leiknum. Daanish setti niður bæði vítin og staðan orðin 95-93 og Stjarnan tók leikhlé. Jovan Zdravevski tók innkastið fyrir Stjörnuna á miðjum vellinum og var fljótur að finna Shouse. Justin brunaði upp vinstri kantinn og inn endalínuna þar sem hann tók erfitt skot til að jafna leikinn en það geigaði og Stólarnir fögnuðu innilega sínum fyrsta útisigri á leiktíðinni og öðrum deilarsigrinum í röð.
 
Amani Daanish var stigahæstur hjá Tindastól með 26 stig, 12 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 varin skot. Daanish vaknaði verulega til lífsins í síðari hálfleik eftir að hafa verið vart skugginn af sjálfum sér í þeim fyrri. Helgi Viggósson var vafalítið maður vallarins og í þrígang voru áhorfendur í stórfelldri hættu þegar Helgi kastaði sér á eftir boltanum upp í stúku, ekki málið fyrir norðlenska nautið. Helgi lauk leik með 20 stig, 12 fráköst og 2 stolna bolta. Þá átti Giovacchini ekki síðri leik fyrir gestina með 23 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.
 
Justin Shouse bar Stjörnuna á herðum sér í síðari hálfleik í kvöld en hann gerði 38 stig og gaf 11 stoðsendingar í leiknum. Næstur honum var Jovan Zdravevski með 21 stig og 5 fráköst. Magnús Helgason átti þokkalegar rispur með 11 stig og Fannar Freyr Helgason gerði 6 stig í sínum fyrsta leik með Stjörnunni eftir meiðsli. Fannar var einnig með 6 fráköst en hann var ekki á öllum fimm gírunum í kvöld en virtist ekki eiga langt í land.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -