spot_img
HomeFréttirNM: Silfur hjá U 18 kvenna og Helena best

NM: Silfur hjá U 18 kvenna og Helena best

{mosimage}

Stelpurnar í 18 ára liðinu náðu ekki að endurtaka leikinn frá því fyrir tveimur árum og tryggja sér Norðurlandameistaratitilinn. Liðið tapaði með 15 stigum fyrir Svíum, 64-79, í úrslitaleiknum í dag. Helena Sverrisdóttir skoraði 33 stig í leiknum en fór útaf með fimm villur þegar tæpar fimm mínútur voru eftir. Helena var valinn besti leikmaður mótsins og María Ben Erlingsdóttir komst einnig í úrvalsliðið. Íslenska 18 ára landslið kvenna hefur þar með unnið silfur á Norðurlandamótinu tvö ár í röð en í bæði skiptin voru það heimamenn Svíar sem urðu Norðurlandameistarar.

Íslenska liðið hélt í við Svía fyrstu fimm mínútur leiksins en síðan fóru heimastúlkur að síga fram úr og það var eins og það vantaði hreinlega meiri kraft og leikgleði í íslenska liðið. Svíþjóð var 6 stigum yfir eftir 1. leikhluta, 15-21, og var komið með 14 stiga forskot í hálfleik, 25-39.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks fóru síðan með möguleika íslenska liðsins á að koma sér inn í leikinn á nýjan leik því Svíar juku muninn í 20 stig, 29-49, fyrstu 3 mínútur hans. Með góðum kafla náðu íslensku stelpurnar að minnka muninn niður í 6 stig undir lok þriðja leikhlutans, 49-55, en Svíar skoruðu lokakörfuna og voru yfir 49-57 fyrir lokaleikhlutann. Svíar gáfu síðan engin færi á sér í 4. leikhluta og unnu á endanum með 15 stigum, 64-79.

Helena Sverrisdóttir var með 33 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum en tapaði boltanum alls 10 sinnum og það var í töpuðum boltum (29 alls í leiknum) sem möguleikar íslenska liðsins runnu helst út í sandinn. Þetta var fyrsta tap íslenska 1988-árgangsins á Norðurlandamótinu síðan í fyrsta leik í keppni 16 ára liða árið 2004 en íslensku stelpurnar höfðu fyrir leikinn unnið 8 leiki í röð. Helena og María Ben Erlingsdóttir voru báðar í úrvalsliði mótsins ásamt þremur sænskum stelpum og Helena Sverrisdóttir var kosin besti leikmaður mótsins.

18 ára konur, úrslitaleikur

Ísland-Svíþjóð 64-79 (15-21, 25-39, 49-57)

Stig Íslands: Helena Sverrisdóttir 33 (8 fráköst, 5 stoðsendingar), María Ben Erlingsdóttir 13, Bryndís Guðmundsdóttir 8 (5 fráköst), Bára Bragadóttir 4, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 2 (7 fráköst), Margrét Kara Sturludóttir 2 (5 fráköst), Sigrún Ámundadóttir 2.

Frétt og mynd af www.kki.is

Fréttir
- Auglýsing -