Njarðvík tók í dag á móti nágrönnum sínum í Grindavík í 1. deild. fyrir leikinn sátu Njarðvíkingar í 4. sæti með 6 stig eftir sex leiki og Grindavík var í 2. sæti með 8 stig.
Það vantar einhverja leikmenn í Grindavíkurliðið en þeir fengu nýverið til lið við sig Elsu Albertsdóttir að láni frá Keflavík. Njarðvík sem vantaði tvo leikmenn í síðasta leik var full mannað.
Liðin voru mjög jöfn í fyrsta leikhluta, bæði lið að spila fínan körfubolta og sýndu mikla baráttu. Staðan að fyrsta leikhluta loknum 17 – 16.
Njarðvíkur stúlkurnar byrjuðu 2. leikhluta betur og komust í 27 – 18. Nágrannarnir frá Grindavík fóru þá loksins að setja boltann. Þær fóru í kjölfarið í svæðisvörn sen heimastúlkur áttu erfitt með að byggja upp sókn á móti og náðu muninum niður í 1 stig. Þeim gekk þó ekki nógu vel síðustu mínúturnar í sókninni og náðu því ekki að fara fram úr Njarðvíkingum. Staðan í hálfleik 34 – 33.
Liðin skiptust á að leiða í þriðja leikhluta sem var stórskemmtilegur, en það voru Njarðvíkingar sem kláruðu leikhlutann ögn betur og leiddu að þriðja leikhluta loknum 47 – 44.
4. leikhluti var virkilega spennandi, Njarðvík leiddi en Grindvíkingar önduðu ofan í hálsmálið á þeim og tóku forystuna þegar um 5 mínútur voru eftir. Njarðvíkurstúlkur voru þó fljótar að svara og tóku forystuna strax aftur. Þær bættu svo vel í og spiluðu frábæra vörn og lönduðu sigri 67 – 57.
Byrjunarlið:
Njarðvík: Júlía Scheving Steindórsdóttir, Vilborg Jónsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir, Eva María Lúðvíksdóttir, og Kamilla Sól Viktorsdóttir.
Grindavík: Ólöf Rún Ólafsdóttir, Natalía Jenný Jónsdóttir, Ingibjörg Jakobsdóttir og Hrund Skúladóttir og Sigrún Elfa Ágústsdóttir.
Þáttaskil:
Þristaregn Kamillu Sól Pálsdóttur var það sem gerði gæfumuninn fyrir heimastúlkur.
Tölfræðin lýgur ekki:
Njarðvík hitti einfaldlega betur en Grindavík 43% – 39% í tveggja stiga skotum og 30% – 11% í þriggja stiga skotum.
Hetjan:
Hjá gestunum átti Sigrún Elfa Ágústsdóttir mjög góðan leik, 22 stig, 10 fráköst og 25 í framlag og Hrund Skúladóttir, 27 stig, 10 fráköst og 32 í framlag átti stórleik. Hjá heimastúlkum var Vilborg Jónsdóttir fín, skilaði 14 stigum, 8 fráköstum og 3 stoðsendingum, Jóhanna Lilja Pálsdóttir átti góðan leik, skilaði 11 stigum, 6 fráköstum og 15 í framlag. Það var hins vegar Kamilla Sól Viktordóttir sem var best Njarðvíkinga, hún var með 27 stig, 3 fráköst og 23 í framlag.
Kjarninn:
Njarðvíkurstúlkur áttu stórgóðan leik á meðan gestirnir frá Grindavík náðu aldrei að nýta sér á köflum fína vörn því sóknin var ekki nógu beitt. Þetta eru tvö fín körfubolta lið sem sýndu frábæra spilamennsku inn á milli og það verður gaman að fylgjast með þróun þeirra í vetur.
Viðtöl:
Viðtal við Ragnar Halldór Ragnarsson þjálfara Njarðvíkur og Jóhann Árna Ólafsson þjálfara Grindavíkur eru hér að neðan.