spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaNjarðvíkursigur í vígsluleik IceMar-Hallarinnar

Njarðvíkursigur í vígsluleik IceMar-Hallarinnar

Njarðvík opnaði nýju IceMar-Höllina sína með sigri 89-80 þegar vígsluleikurinn fór fram í kvöld. Hörku slagur sem var jafn frá upphafi til enda en heimamenn voru seigir á lokasprettinum með þá Shabazz og Dwayne fremsta í flokki.

Fyrsti leikur í nýrri IceMar-Höll, lifandi tónlist og hamborgarar á boðstólunum og fullt út úr dyrum. Mikil eftirvænting hjá Njarðvíkingum að komast í nýtt keppnishús og það er heldur betur huggulegt.

Dwayne Lautier-Ogunleye opnaði stigareikninginn í IceMar-Höllinni og fyrstu stigin í húsinu í úrvalsdeild voru þristur. Dwayne og Andrew Jones hjá Álftanesi voru sprækir í fyrsta leikhluta, Dwayne með 8 stig og Jones 13 hjá gestunum sem leiddu 24-25 eftir fyrsta.

Kahlil Shabazz var að finna fjölina hjá Njarðvík með 5 af 9 í þristum í fyrri hálfleik og leiddi heimamenn með 19 stig en Dwayne 16. Hjá Álftanesi var Jones áfram stigahæstur með 13 stig og Dúi Þór Jónsson með 8 en Dúi kom sterkur inn af bekknum. 

Shabazz var áfram beittur Njarðvíkurmegin í þriðja og heimamenn leiddu 68-60 að loknum þriðja leikhluta. Gestirnir frá Álftanesi gerðu vel í upphafi fjórða og jöfnuðu metin 70-70. Lokaspretturinn var æsispennandi en Njarðvíkingar hirtu stigin tvö sem voru í boði í kvöld.

Kahlil Shabazz gerði 33 stig í kvöld.fyrir Njarðvíkinga, var 7-14 í þristum og þá bætti Dwyane við 32 stigum. Hjá Álftanesi var Jones stigahæstur með 26 stig og Okeke bætti við 14.

Næst á dagskrá hjá Njarðvík er útileikur gegn Keflavík en Álftanes tekur á móti meisturum Vals í næstu umferð.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Fréttir
- Auglýsing -