Haukar tóku á móti Njarðvíkingum í Schenkerhöllinni í kvöld í 21. umferð Domino‘s deildar kvenna. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið þar sem einungis fjögur stig skildu liðin að, Njarðvík sat í 6. sæti deildarinnar með 14 stig og Haukar í 7. sæti með 10 stig.
Framvinda
Gestirnir úr Njarðvík hófu leikinn betur í kvöld, náðu 7 stiga forystu um miðjan fyrsta leikhluta og leiddu stærstan hluta fjórðungsins. Haukar hleyptu Njarðvík þó aldrei langt frá sér og jöfnuðu leikinn þegar skammt var liðið á annan leikhluta. Njarðvíkingar pressuðu vel á Hauka síðustu mínútur fyrri hálfleiks og unnu með því upp 7 stiga forskot áður en flautað var til hálfleiks.
Eftir góða byrjun í seinni hálfleik þar sem Haukar minnkuðu forystu Njarðvíkur í 3 stig, settu Njarðvíkingar í fluggírinn og juku forskotið í 10 stig í stöðunni 41-51. Haukar voru þó ekki á því að gefast upp, hertu á vörninni og sköpuðu sér betri færi í sókninni. Þær héldu Njarðvíkingum í tveimur stigum í seinni hluta þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í eitt stig fyrir lokafjórðunginn.
Stigahæsti leikmaður Hauka í kvöld, Nashika Wiliams, meiddist á ökkla rétt í þann mund sem þriðja leikhluta lauk og virtist sárkvalin. Haukar léku því án Wiliams mestan hluta fjórða leikhluta og var hún ekki svipur hjá sjón þær tæpu tvær mínútur sem hún lék í lokafjórðungnum.
Haukar hófu fjórða leikhluta betur og komust í þriggja stiga forystu í stöðunni 57-54. Á sama tíma gekk hvorki né rak í sóknarleik Njarðvíkinga og auðveld skot vildu ekki ofan í. Carmen Tyson-Thomas tók þá málin í sínar hendur og skoraði 11 af síðustu 12 stigum Njarðvíkur í leiknum sem lauk með 5 stiga sigri Njarðvíkur, 61-66.
Tölfræðin
Njarðvíkingar settu tóninn strax í fyrstu sókn sinni í kvöld þar sem þær tóku 3 sóknarfráköst. Í lok leiks voru sóknarfráköst Njarðvíkur orðin 28 talsins á móti tveimur sóknarfráköstum Hauka. Njarðvíkingar unnu því frákastabaráttuna nokkuð örugglega, tóku 63 fráköst í heildina á meðan Haukar tóku 39 fráköst.
Hetjan
Eins og svo oft áður í vetur var það Carmen Tyson-Thomas sem dróg vagninn í sóknarleik Njarðvíkur. Hún skoraði 38 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 22 fráköst, þar af 11 sóknarfráköst og var langatkvæðamest gestanna.
Kjarninn
Sex stig skilja nú að Njarðvík og Hauka í 6. og 7. sæti Domino‘s deildar kvenna. Grindvíkingar töpuðu naumlega á móti Stjörnunni í kvöld svo Haukar hafa enn fjögurra stiga forystu á Grindvíkinga sem sitja í botnsæti deildarinnar. Njarðvík er í harðri baráttu við Val um 5. sætið en Valur hafði sigur á Skallagrím í kvöld og því munar enn tveimur stigum á liðunum.