Njarðvík og KR áttust við í kvöld í Ljónagryfjunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Domino´s deildarinnar. Síðasti leikur þessara liða var virkilega spennandi og endaði með sigri KR eftir tvíframlengdan leik í DHL höllinni. Njarðvík ekki unnið leik á heimavelli í úrslitakeppninni í ár eftir að hafa tapað báðum heimaleikjum sínum á móti Stjörnunni en bættu það upp með að vinna alla útileikina í þeirri seríu og komast þannig í þessa rimmu við KR. Svartir og hvítir fóru frekar auðvelt í gegnum Grindavík í átta liða úrslitum og virtust örlítið ryðgaðir í síðasta leik þessara liða en sluppu með skrekkinn og leiða einvígið 1-0.
Fyrsti leikhluti byrjaði með látum þar sem hraðinn var mikill og liðin skiptust á að skora. Haukur Helgi byrjaði vel hjá heimamönnum en hann setti niður 5 fyrstu stig þeirra. Njarðvíkingar voru að hitta vel fyrir utan til að byrja með en þeir voru búnir að setja niður 4 þriggjastiga körfur á fyrstu 4. mínútum leiksins. Jafnræði var á með liðunum framan af en þegar Njarðvík var komið í stöðuna 18-13 tók Finnur þjálfari KR leikhlé. Það fór vel í Darra Hilmarsson hjá KR að fá smá pepp frá þjálfara sínum því hann virtist ekki geta klikkað á skoti og setti niður 7 stig í röð og kom sínum mönnum yfir 18-20. Njarðvík var á þessum tímapunkti að tapa frákastabaráttunni illa því KR hafði tekið 8 fráköst á móti 3. KR-ingar héldu uppteknum hætti út leikhlutan á meðan vörn Njarðvíkinga var alls ekki nógu góð en trekk í trekk löbbuðu gestirnir inn miðja vörnina og lögðu boltan ofaní. Svo fór að lokum að KR leiddi 20-29 eftir annað 7-0 áhlaup í lokin. Darri Hilmars fór á kostum með 10 stig í leikhlutanum.
Annar leikhluti byrjaði betur hjá heimamönnum sem settu 5 fyrstu stigin. En það stóð ekki lengi yfir því títt umtalaður Darri Hilmarson var fljótur að þagga niður í þeim með 3.stiga körfu. Hægt og bítandi slitu KR sig frá heimamönnum en Craion, sem fékk sína 3 villu í leikhlutanum, Pavel og Darri voru atkvæðamiklir sóknarlega ásamt því sem vörnin var mjög sterk. Ekkert virtist ganga upp hjá Njarðvík og skotin sem voru að rata ofaní í byrjun leiks virtust hafa villst eitthvað því ekkert fór ofaní og mjög fá stopp komu varnarlega. Eini maðurinn með lífi sóknarlega á köflum í liði heimamann var Haukur Helgi en hann setti 9 stig í röð fyrir Njarðvík. Snjólfur Marel kom inn í liði heimamanna og reyndi að blása lífi í varnarleikinn en það gekk ekki betur en svo að hann var komin með 3 villur á skömmum tíma og þar af búin að senda KR á línuna í tvígang. Svo fór að KR leiddi i leikhléi 38-55 erftir að Pavel setti niður hrikalega flotta 3.stiga flautukörfu í lokin.
Atkvæðamestir Njarðvík: Haukur Helgi 16 stig, Logi Gunnars 8 stig og þeir Ólafur Helgi og Oddur Rúnar með 5 stig hvor
Atkvæðamestir KR: Darri Hilmars 15 stig, Pavel 15 stig og M. Craion 11 stig.
KR með 26 fráköst á móti 7 hjá Njarðvík
Byrjun 3. leikhluta var svipuð og allur annar leikhluti. KR setti niður 7 fyrstu stigin og komu sér í 24 stiga mun 38-62 en vörnin hjá þeim virtist órjúfanleg á þessum tímapunkti. Craion nældi sér í sína 4 villu fyrir sóknarbrot snemma í leikhlutanum og tók sér sæti á bekknum. Þegar hér var komið við sögu virtist ekkert vera að ganga upp hjá heimamönnum en þá Sgði Logi Gunnarsson hingað og ekki lengra. Kappinn setti í fluggír og setti niður þrjár 3.stiga körfur á stuttum tíma ásamt því að setja niður körfu og víti í leiðinni og fór hann fyrir 12-0 áhlaupi heimamanna. Maciej Baginski sem hafði haft hægt um sig setti niður mikilvægar körfur. Hægt og býtandi unnu heimamenn á og svo fór að þeir átu upp þennan 24 stiga mun KR og minnkuðu hann niður í 7 stig þegar upp var staðið og staðan fyrir lokaleikhlutann 63-70 en Haukur Helgi setti niður góða þriggja stiga körfu á flautunni. Logi Gunnarsson var frábær í leikhlutanum og setti hann niður 16 stig en Njarðvík saknaði framlags frá fleiri leikmönnum framan af leiknum.
4. leikhluti var svo æsispennandi en hann byrjaði kunnulega með því að Darri Hilmars setti niður 5 fyrstu stigin en hann var með um 60 % skotnýtingu lengst af í leiknum. Liðin skiptust á að skora í kjölfarið. Þegar 3:50 voru eftir á klukkunni var staðan 73-83 fyrir gestina í KR en í kjölfarið náðu Njarðvíkingar tvemur stoppum í röð og Maciej og Haukur Helgi settu niður góðar körfur í sókninni. Þegar um 2. mínútur voru eftir fékk Craion sína 5. villu fyrir sóknarbrot og í kjölfarið skoraði Maciej góða körfu og minnkaði muninn í 82-85. Haukur Helgi minnkar svo muninn í 1 stig 84-85 þegar 55 sek eru á klukkunni. Í næstu sókn brýst Pavel í gegn en hittir ekki úr skoti sínu. Í kjölfarið brýtur Snorri á Hauk Helga í baráttunni um frákastið og sendir Hauk á línuna sem setur bæði vítin og kemur Njarðvík yfir 86-85. KR leggur í næstu sókn sem endar á því að brotið er á Helga Má sem sendir hann á línuna þegar 21 sekúnda er eftir af leiknum. Helgi hitti úr öðru víti sínu og jafnaði metin 86-86. Njarðvík tók leikhlé og teiknaði upp síðustu sókn sína. Njarðvík stillir upp í sóknina og Haukur Helgi fær boltann og lætur klukkuna líða áður en að hann tekur á rás inn í teiginn og lyftir sér upp í skot sem ratar beinustu leið ofaní og kemur Njarðvík í 88-86 þegar 2,48 sek eru eftir á klukkunni. KR tekur leikhlé og stillir í síðustu sóknina í leiknum. Hún endar á því að boltinn ratar í hendur Darra Hilmarssonar sem var búin að vera á eldi í leiknum. Hann fær boltann inn í teig og lyftir sér í skot sem skoppar af hringnum um leið og lokaflautið gellur. Njarðvíkur sigur 88-86 staðreynd í ótrúlega kaflaskiptum leik.
Atkvæðamestir Njarðvík: Haukur Helgi 27 stig/ 6 fráköst, Logi Gunnarsson 23 stig/4 fráköst/ 5 stoðsendingar, Maciej Baginski 19 stig, Jeremy Atkinsson 8 fráköst og Oddur Rúnar 7 stoðsendingar.
Atkvæðamestir KR: Darri Hilmarsson 28 stig/ 9 fráköst, Pavel 17 stig/ 12 fráköst/ 5 stoðsendingar, Michael Craion 15 stig/ 7 fráköst, Snorri Hrafnkels 10 stig/ 4 fráköst, Helgi Már 7 stig/ 7 fráköst
Myndasafn – Skúli Sigurðsson
Umfjöllun – Árni Þór Ármannsson