Njarðvíkurstúlkur halda áfram að naga í hælana á Keflavík á toppi Iceland Express deildar kvenna. Í kvöld sigruðu þær Hamarsstúlkur sem komu í heimsókn í Ljónagryfjuna. 89:77 var lokastaða leiksins en í fyrri hálfleik virtust heimastúlkur ætla að fara illa með Hamar eftir að hafa leitt þá 51:38.
Njarðvík hóf leikinn af krafti en að sama skapi voru Hamarsstúlkur mjög seinar í gang. Petrúnella Skúladóttir opnaði leikinn með þrist og þegar 2:30 mín voru liðnar af leiknum var staðan orðin 21:8. Í öðrum leikhluta slaknaði á leik heimastúlkna og Hamar héldu algerlega í við Njarðvík með ágætis leik. Varnarleikurinn var harður á báða bóga og sem fyrr segir voru það heimastúlkur sem leiddu í hálfleik með 13 stiga forskoti, eða það forskot sem þær höfðu byggt upp í fyrsta leikhluta.
Sverrir Þór hefur eitthvað látið sýnar stúlkur heyra það í leikhléi því þær komu grimmar til leiks og líkt og í byrjun leiks hófu þær þann seinni á góðum þrist sem Hamar reyndar náði að svara fyrir í næstu sókn. En þá kom áhlaup Njarðvíkur þar sem þær náðu 20 stiga forskoti. En enn og aftur slökuðu þær á bæði í vörn og sókn. Að sama skapi var stíf svæðisvörn Hamars að virka ágætlega. Flæðið var lítið og lélegt á boltanum í sókn Njarðvíkur og það kann ekki góðri lukku að stýra.
En þrátt fyrir góða baráttu þá náðu Hamar aldrei virkilega að ógna sigri Njarðvíkur þetta kvöldið. Mest náðu þær muninum niður í 8 stig undir miðbik þriðja leikhluta og það sama í þeim fjórða en það dugði skammt og heimastúlkur sigldu sigrinum í land nokkuð örugglega.
Lele Hardy var atkvæða mikil þetta kvöldið og skoraði 28 stig ásamt því að taka 15 fráköst. Þessi tröllatvenna skilaði henni einnig titlinum (kvenn)maður leiksins. Shanea Baker-Brice kom henni næst með 19 stig.
Kunnulegt andlit var komið á ný í búning Hamars en það var Fanney Lind Guðmundsdóttir sem sýndi fína takta og á bara eftir að komast betur inn í leik liðsins og styrkja liðið fyrir átökin sem eftir eru.