spot_img
HomeBikarkeppniNjarðvíkingar völtuðu sér leið inn í bikarúrslit

Njarðvíkingar völtuðu sér leið inn í bikarúrslit

Njarðvíkingar sigldu örugglega inn í VÍS-bikarúrslit með stórsigri á ÍR í Ljónagryfjunni í kvöld. Lokatölur voru 109-87 þar sem heimamenn í Njarðvík voru við stýrið frá upphafi til enda. Nicholas Richotti og Dedrick Deon Basile voru stigahæstir hjá Njarðvík báðir með 19 stig.

Nico Richotti fór mikinn í fyrri hálfleik hjá Njarðvík með 12 stig í fyrsta leikhluta og 7 í öðrum leikhluta og heimamenn leiddu 57-29 í leikhléi. Öflug boltahreyfing og góður varnarleikur heimamanna setti ÍR-inga á hælana en Breki Gylfason átti fína spretti í dag á meðan Shakir var helst til of lengi að koma sér í gang fyrir ÍR.

Dedrick Basile tók við keflinu hjá Njarðvík í síðari hálfleik af Richotti og síðari hálfleikur varð aldrei spennandi. Njarðvíkingar fengu framlag úr öllum áttum og voru mjög vel stemmdir.

Yngri menn fengu að spreyta sig hjá báðum liðum þegar leikurinn var kominn í teskeið hjá Njarðvík en þar nýtti Elías Bjarki Pálsson sínar mínútur vel og setti sjö stig og gaf 3 stoðsendingar. Sex af stigunum komu úr þristum og hans fyrstu meistaraflokksþristar komnir í bankann. Eins komst Jan Baginski vel frá sínu og setti tvo þrista líkt og kollegi sinn Elías.

Shakir var stigahæstur hjá ÍR í kvöld með 26 stig en fór hljóðlega af stað, Breki Gylfason var einna bestur hjá ÍR á meðan sex liðsmenn Njarðvíkur voru með 12 stig eða meira í leiknum.

Njarðvíkingar leika því til bikarúrslita um helgina en það skýrist innan tíðar hvort það verði gegn Sjtörnunni eða Tindastól.

Tölfræði leiksins
Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -