Njarðvík vann í kvöld góðan sigur á Haukum í Subway-deild kvenna í næstsíðustu umferð A-deildar. Lokatölur í Ljónagryfjunni voru 84-71 þar sem Ljónynjurnar voru við stýrið frá upphafi til enda.
Í kvöld vantaði sterka leikmenn í báða hópa en Emilie Hesseldal og Jana Falsdóttir voru á hnjaskvagni Njarðvíkinga og þá var Lovísa Henningsdóttir sömuleiðis í borgaralegum klæðum hjá Haukum.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og Njarðvík leiddi 13-10 en síðustu fimm mínútur fyrsta leikhluta fóru 16-7 fyrir Njarðvík þar sem Ena Viso var í stuði og heimakonur leiddu því 29-17 eftir fyrstu tíu mínútur leiksins. Haukar að sama skapi ekki að hitta vel, 2-7 í teignum og 1-5 í þristum gegn fínni vörn Njarðvíkurkvenna.
Haukar vöknuðu betur í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn með því að vinna leikhlutann 16-21 og því var staðan 45-38 í hálfleik. Tinna að spila vel fyrir Hauka með 11 stig í fyrri hálfleik en Viso með 15 og Strize 12 hjá Njarðvíkingum.
Varnarleikur beggja liða var allur betri í þriðja leikhluta en samt voru Njarðvíkingar ávallt feti framar, leiddu 52-43 um miðbik þriðja og svo 65-55 eftir fullar 30 mínútur. Í fjórða hótuðu Haukar nokkrum sinnum að komast nærri en Njarðvík hélt þetta út og vann eins og áður greinir 84-71.
Ena Viso var stigahæst hjá Njarðvík í kvöld með 22 stig og 12 fráköst en hún var ekki ein um tvennurnar í kvöld þar sem Isabella Ósk Sigurðardóttir var með 11 stig og 11 fráköst hjá Njarðvík og þá bætti Selena Lott við 19 stigum og Strize 15. Hjá Haukum var Tinna Alexandersdóttir stigahæst með 18 stig og þær Þóra og Kiera báðar með 15.
Njarðvík mætir Keflavík í lokaumferð deildarinnar en Haukar hafa lokið deildarkeppninni og sitja því hjá síðustu umferðina.
Gangur leiksins
13-10, 29-17
42-26, 45-38
52-43, 65-55
73-59, 84-71